Sauðaþjófar!

Sumarnótt
Hún er falleg, vornóttin

Það er ýmislegt sem gerist á sauðburði, enda hasar á öllum stöðum og margt sem þarf að gæta að.

Hér verður fjallað um þjófóttar kindur, já það er til og er ekkert grín!

Kindurnar okkar byrja oft að bera út í kró, semsagt við setjum þær ekki í stíu fyrr en í fyrsta lagi að það sé kominn belgur (poki af legvatni) aftan á þær, og stundum setjum við þær ekki í stíu fyrr en fyrra lambið er komið. Þetta gerum við til að raska ró kindanna ekki of mikið á meðan þær eru að bera.

Þegar ærnar eru komnar í einstaklingsstíu er síðan trégrind sem skilur þær frá hinum óbornu kindum og eru nýbærurnar svokölluðu þannig í vernduðu umhverfi fyrst um sinn.

Þegar kindurnar bera úti í kró þýðir það að þær fæða fyrsta lambið innan um óbornu ærnar. Oftast gengur það vel, kindin er bara með sín lömb í krónni í friði og spekt og enginn skiptir sér af henni. Við setjum kindina síðan í einstaklingsstíu með því að láta hana elta lömbin sín, höldum semsagt á þeim og göngum afturábak þannig að kindin fylgi á eftir.

Stundum eiga hinar nýbornu kindur hins vegar við þjófnaðarfaraldur að etja. Það kemur nefnilega fyrir að þær ær sem eru óbornar nenna ekki að bíða eftir því að þær beri sjálfar og finnst mun hentugra að stela lömbum frá nýbærum, stundum er sagt að slíkar kindur séu móðursjúkar. Viðkomandi fjárhirðir þarf því að vera vel vakandi fyrir þessu vandamáli enda geta þjófærnar verið ansi snöggar til verka.Þjófnaður

Þegar óbornar ær reyna að stela lömbum er yfirleitt hægt að koma í veg fyrir vandamálið með því að setja nýbæruna í stíu en þannig er búið að koma í veg fyrir að þjófurinn nái lambinu. Stían virkar þess vegna pínulítið eins og þegar fólk læsir húsunum sínum til að fá ekki óboðna gesti.

Ef kind ber úti í kró er hins vegar kjörið tækifæri fyrir þjófana að láta til skarar skríða. Það hefst með því að þær hjálpa móðurinni við að sleikja lambið en endar með því að þær hindra móðurina í að komast nálægt lambinu.

Svæsnustu þjófarnir láta hins vegar ekki staðar numið þegar nýbæran er komin í stíu heldur reyna að stela lömbunum úr einstaklingsstíunum og ná meira að segja stundum árangri. Eina nótt í byrjun sauðburðar bar til dæmis kind á kvöldvaktinni sem var strax eftir burð færð í einstaklingsstíu. Þegar ég kom síðan út á næturvaktina skildi ég ekkert í því að það var lamb úti í miðri kró og sást engin kind nýborin nálægt. Eftir nánari eftirgrennslan kom í ljós að lambið var í eigu kindarinnar sem hafði borið fyrr um kvöldið, en ein óborin ær hafði hins vegar verið svo grimm í þjófnaðinum að hún hafði náð að lokka lambið í gegnum grindina og langt í burtu frá upprunalegri móður. Sen betur fer vildi móðirin lambið ennþá, en það er mesta hættan við svona tilfelli að þjófurinn nái að gera upprunlalega móður afhuga lambinu.

Nokkru síðar bara síðan einlemba út í kró, en við leyfum þeim stundum að vera bara í krónni með óbornum kindum ef ekkert vandamál er. Tveimur dögum eftir að hún bar reyndi hún síðan að stela sér fleiri lömbum frá kindum sem voru að bera. Það er afar sjaldgæft að kindur reyni að stela lömbum eftir að þær eru sjálfar bornar, en þessari fannst greinilega ekki nóg að vera með eitt lamb!

En þó að þessi móðursýki geti verið afar þreytandi þá er svona ofur-móðureðli nú einmitt ástæðan fyrir því að það er hægt að venja lömb undir aðrar kindur. Hér fyrir neðan er mynd af honum Botna litla sem var frekar óheppinn um daginn. Þannig var að mamma hans veiktist og dó og vantaði hann því nýja mömmu. Fyrsta ærin sem reynt var að venja hann undir var hálf slöpp og vildi ekki meira en sitt eigið lamb. Næsta kind sem var reynt við var ung kind á gelgjunni og hafði nóg með sitt eigið lamb. Þriðja kindin sem reynt var að venja Botna undir lét sér vel líka en bar síðan allt í einu lambi til viðbótar og var þar með orðin þrílembd, sem gekk nú ekki alveg upp. Loks tókst þó í fimmtu tilraun að finna mömmu handa Botna sem vildi hann og hef ég sjaldan séð annan eins hamingjusvip á einu lambi og Botna litla þegar hann uppgötvaði að þessi nýja mamma bæði vildi eiga hann og var með næga mjólk handa honum til að gæða sér á. Á myndinni er hann með nýja bróður sínum, saddur og sæll 🙂

Botni litli


Ein athugasemd við “Sauðaþjófar!

  1. Blessuð Sigríður.
    Mér var í dag bent á þessa skemmtilegu síðu sem þú heldur úti. Vel gert og vandað, ekki síst málfarið.
    Til hamingju.
    Bjarni á Hrísum

    Líkar við

Færðu inn athugasemd