Orðabók

Hér verða ýmsar orðskýringar birtar og bætt við þær eftir því sem færslum fjölgar. Endilega hafið samband ef ykkur finnst einhverjar skýringar vanta.
Athugið að þessar orðskýringar eru upprunnar hjá mér og ef þær stangast á við íslensku orðabókina er ákaflega líklegt að orðabókin sé með réttari skýringu en þessi texti 🙂

 

  • Afurð – kíló af kjöti eftir hverja á, fallþungi margfaldaður með lambafjölda og leiðrétt fyrir líflömbum
  • Ásetningur – sama og líflamb
  • Blæsma – ær með egglos, líka talað um að beiða
  • Botnótt – kind sem er dökk að ofan en hvít á bumbunni og bossanum
  • Einstaklingsnúmer – kennitala
  • Erfðaframfarir – þegar næsta kynslóð er betri en sú á undan
  • Fallþungi – skrokkþyngd þegar húð (gæra) og innyfli eru tekin frá
  • Fengitími – tilhugalíf sauðfjár, á sér yfirleitt stað á tímabilinu nóvember -febrúar
  • Fitusnautt – kjöt með litla fitu
  • Fjárhús – samastaður (heimili) kinda á veturna
  • Fjárvís – skýrsluhaldskerfi fyrir kindur
  • Frjóvga – koma á sambandi á milli eggs og sáðfrumu
  • Ganga – þegar ær er með egglos
  • Gangmál – tíðahringur áa
  • Garði – matarborð kinda
  • Gæðastýring – kerfi sem er ætlað að tryggja gæði afurða og hámarks nýtingu aðfanga
  • Göngur – lengri smalamennskur
  • Heimagangur – lamb sem missir móður sína og er fóstrað heima yfir sumarið
  • Heimaalningur – sama og heimagangur
  • Hólf – afmarkað pláss í fjárhúsum
  • Hrútur – karlkyns sauðkind
  • Hrútaskrá – listi yfir bestu hrúta landsins
  • Hvíta húsið – sláturhús
  • Kind – sauðkind
  • Kjarnfóður – hollustunammi
  • Kró – heimili kinda á veturna
  • Krubba – afmarkað pláss í fjárhúsum
  • Kynbætur – Einstaklingar eru paraðir saman til að reyna að láta næstu kynslóð vera betri en þá á undan
  • Kögglaspök – nammigrís
  • Kögglar – sama og kjarnfóður
  • Lamb – afkvæmi sauðfjár
  • Líflamb – lamb sem verður að kynbótadýri
  • Lokahnykkur – sáðlát hrúta
  • Mannkind – upprétt einmaga fyrirbæri (stundum með aukamaga fyrir ís). Án klaufa en með tær, ekki einhugur um gagn af þessari tegund. Kölluð klaufi af sumum, þrátt fyrir klaufaleysi. Jafnvel þrjóskara fyrirbæri en sauðkindin.
  • Mislitur – sauðfé sem er ekki hvítt á litinn
  • Rolla – kvenkyns sauðkind af óþekkari gerðinni
  • Ræktunarmarkmið – lýsing á því hvernig sauðfjárbændur vona að kindur verði í framtíðinni
  • Sauðfé – kindur/rollur/skjátur/hrútar/bekrar/sauðir/lömb/sauðkindur og margt fleira
  • Sauðburður – þegar kindurnar bera/fæða lömbin sín, á sér yfirleitt stað apríl-júní
  • Sauðkind – meðalstórt klaufdýr með fjóra maga og mikinn þráa
  • Skjáta – kvenkyns sauðfé, jafnvel óþekkara en rollur
  • Sláturupplýsingar – þungi og mat á kjötprósentu og fituprósentu skrokka.
  • Smalamennskur – þegar kindur eru reknar heim á haustin
  • Spök – kind sem finnst gott að fá klapp og knús
  • Stanga – berja einhvern með hausinn að vopni
  • Stía – afmarkað pláss í fjárhúsum
  • Sæði – það hljóta nú allir að vita hvað þetta er
  • Sæðing – tæknifrjóvgun
  • Sæðingastöð – heimili og vinnustaður bestu hrúta landsins
  • Ull – hárin á kindum
  • Upprunamerking – segir hvaðan (frá hvaða bæ/afurðastöð/landi) viðkomandi afurð er
  • Vöðvamikið – massað
  • Ær – kvenkyns sauðkind