Fjárvís

Núna er nýlokið áramótaskilum í Fjárvís, en skil á bókhaldsgögnum í honum eru tvisvar á ári. Já, það er nauðsynlegt að vera með bókhaldið á hreinu sama hvort það er heimilisbókhaldið, fyrirtækjabókhaldið eða kindabókhaldið og já þið lásuð rétt, það er til sérstakt bókhaldskerfi fyrir kindur.

Bókhaldskerfi þetta er staðsett á internetinu og heitir Fjárvís. Helsta hlutverk kerfisins er að halda utan um ætternisupplýsingar og einstaklingsmerkingar hverrar hjarðar. Þetta kerfi er semsagt grundvallarforsenda þess að hægt sé að rekja uppruna sauðfjárafurða frá haga í maga, eins og stundum er sagt.

Fjárvís- bókhaldskerfið, eða skýrsluhaldskerfið öðru nafni, er sameiginlegt yfir landið að nokkru leyti. Hvert bú hefur sinn eigin aðgang að kerfinu og skráir afdrif síns stofns, en afurðaútreikningar eru reiknaðir út sameiginlega yfir allt landið og er þannig hægt að finna út t.d. hvernig búið stendur á landsvísu. Þá eru sláturupplýsingar sem og líflömb skráð inn í kerfið sem leiðir aftur til þess að hægt er að velja bestu gripina til undaneldis fyrir næsta ár. Þessar upplýsingar leiða sömuleiðis til þess að hægt er að velja bestu hrúta landsins inn á sæðingarstöð, þannig að allir sauðfjárbændur landsins eigi greiða leið að erfðaefni úr þeim.

Hver ær og hver hrútur eiga sitt einstaklingsnúmer í bókhaldskerfi hvers bús. Hvert lamb fær síðan einstaklingsnúmer sem segir til um hverra kinda það er. Sömuleiðis er skráð hvers kyns lambið er, hvernig það er á litinn, ef það átti fóstursystkin og margt fleira.

Þannig gefur þetta kerfi mikla möguleika til upprunamerkingar á afurðum, sem væri hægt að nýta mun betur en gert er í dag.

Hingað til hefur einungis verið skylda að vera í þessu landlæga bókhaldskerfi ef viðkomandi bóndi er þátttakandi í gæðastýringu. Með tilkomu nýrra búvörusamninga er hins vegar skylda fyrir alla bændur sem eru hluti af niðurgreiðslukerfi landbúnaðarvara að halda slíkt bókhald.

Mér finnst það frábært enda er það grundvallarforsenda fyrir öruggum upprunamerkingum íslenskra sauðfjárafurða að þær séu rekjanlegar frá upphafi til enda.

Það er að auki afar skemmtilegt fyrir einlæga sauðfjárræktaráhugamenn (vá langt orð) að geta legið yfir fjárbókhaldinu daga og nætur. Sjá hvaða kindur gefa best, hvaða ættkvíslar skila mestu, og sérstaklega gaman er að uppgötva gamlar vinkonur í ættartré núverandi fyrirmyndarkinda.

Sem dæmi má nefna að haustið 1994, seinna árið sem við keyptum gimbar af Snæfellsnesinu, fékk ég til eigu svarta gimbur sem ég nefndi Surtlu. Hún var bæði spök og góð og eignaðist margar dætur sem settar voru á. Einhvern veginn fór það samt svo að mér hélst illa á afkomendum hennar í mínum persónulega bústofni og endaði með því að ég átti enga ær skylda henni. Haustið 2011 setti ég svo á fyrir sjálfa mig svarta gimbur sem ég nefndi Svertu. Hún var bæði spök og góð. Þegar ég fór svo að skoða ættartréð hennar komst ég að því að hún Surtla mín gamla og góða var þar á bakvið. Skemmtilegt þegar svona eiginleikar erfast kynslóð fram af kynslóð 🙂

Hér að neðan má sjá hvernig fjárvís lítur út.

fjarvis2


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s