Öfugt við t.d. hesta og hunda er ekki lögð áhersla á sérstaka skapgerðareiginleika við ræktun sauðfjár.
Skapgerðareiginleikar íslenskra kinda hafa þróast með landi, veðri og vindum í gegnum þetta árþúsund sem Ísland hefur verið byggt og gert þær að harðjöxlum í leiðinni.
Kindur eru eins misjafnlega skapi farnar og þær eru margar. Sumar verða spakar og vilja láta klappa sér og dúlla við sig en sumar vilja aldrei koma nálægt manni. Sumar verða frekar og stanga mann ef þær fá ekki nógu mikla athygli… svona væri hægt að telja misjafna eiginleika áfram alveg töluvert lengi.
Kindurnar okkar eru frekar rólegar og kippa sér ekki upp við margt. Þær eru forvitnar og mannblendnar og þegar við bjóðum nýju fólki í fjárhúsin líta þær á það sem tækifæri en ekki vandamál. Einhver kann þá að spyrja hvaða tækifæri þær sjái eiginlega í nýju fólki? Jú, það skal útskýrt hér með. Þær eru nefnilega margar kögglaspakar.
Kögglaspök kind er sú sem étur kjarnfóður (nammi) úr lófa manns en vill ekkert meira klapp en það. Spök kind er hins vegar sú sem finnst gott að fá strokur á vangann og klór á bringuna. Ekki eru allir bændur hrifnir af því að venja kindur á að éta úr lófa en mér finnst svona kögglaspakar kindur skemmtilegar. Þær eru frekjur eins og ég og áræðnar að auki.
Þegar kindur eru kögglaspakar sjá þær það tækifæri í nýju fólki að viðkomandi gæti mögulega verið með eitthvað gott í vasanum sem fengur væri í. Þar með koma þær vaðandi þegar einhver mætir á svæðið; frekjast og troðast bara alveg eins og aðrir Íslendingar haga sér í biðröðum. Já, það er margt líkt með íslenskum sauðkindum og íslenskum mannkindum.
Þær eru heldur ekkert að bíða eftir að þeim sé boðið að gjöra svo vel og fá sér. Í haust, eitthvert skiptið sem við vorum að vigta lömb, setti ég úlpuna mína í garðann til geymslu og í krónum til hliðar við hann voru kindur. Í hægri vasanum á úlpunni voru svo kjarnfóðurkögglar. Úlpan lá í garðanum í dulitla stund en þegar ég tók hana upp skildi ég alls ekki hvað hún var blaut öðru megin. Fljótlega kom þó ástæðan í ljós; kindur eru náttúrulega aldar upp við að kunna að bjarga sér sjálfar, þefuðu þarna uppi kjarnfóður í vasa og hreinlega sleiktu það allt upp. Vasinn var útstæður á eftir sem sýnir hvursu vel þær stóðu sig!
Efri myndin er af Grýlu minni heitinni sem var frekar öfgafullt tilbrigði við kögglaspaka kind og vildi helst gleypa hendina á manni með kjarnfóðrinu. Neðri myndin er sjálfa af mér og Jöru minni en hún var heimagangur sem lamb og illa uppalin að auki. Það leiddi til meiri frekjugangs en hinar kindurnar hafa yfir að búa til samans!