
Varúð: Löng færsla
Ég nefndi það um daginn að hún Gola mín komi með mislit lömb ef kærastavalið gefur tilefni til og núna held ég að sé kominn tími á að skýra þetta nánar. Það er kannski ekkert auðvelt að gera grein fyrir þessu í einu stuttu (eða löngu) bloggi þar sem það hafa í gegnum tíðina verið skrifaðir heilu doðrantarnir um erfðafræði. Tilraunir eiga hins vegar alltaf rétt á sér skilst mér og ef þið viljið nánari útskýringar megið þið endilega hafa samband.
Það er þannig að svipgerð (þ.e. hvernig dýr jarðar koma fram bæði útlitslega og efnislega) skapast annars vegar af erfðaefni frá foreldrum og hins vegar af umhverfi sem viðkomandi einstaklingur elst upp við. Erfðaefni kemur síðan frá báðum foreldrum.
Litir sauðfjár eru geymdir á svokölluðum sætum á litningum. Litningar í heilbrigðum einstakling eru tveir og tveir saman í pari. Á þessum litningum eru mörg sæti og meðal annars þau sem ráða litnum en þau þurfa að vera af ákveðinni gerð til að skapa viðkomandi lit.
Flækjustig erfða er töluvert mikið því í erfðafræðinni er talað um annars vegar ríkjandi og hins vegar víkjandi erfðir í hverju sæti. Það hjálpar kannski að hugsa um þetta sem sitthvort sætið í bíl, bílstjóramegin og farþegamegin, en yfirleitt er það þannig að bílstjórinn ræður för. Ríkjandi erfðir þýðir að annar helmingurinn af sætinu ræður yfir hinum, sem gæti útlagst sem að bílstjórasætið ráði hvert verður farið en ekki farþeginn. Farþeginn myndi aftur kallast víkjandi erfðir. Ríkjandi sæti eru semsagt frekari og ráða yfir hinum en víkjandi sæti fá engu að ráða.
Það er þó ekki endilega nóg að bílstjórasætið segi að kindin eigi að vera með viðkomandi lit. Stundum þurfa nefnilega bílstjóri og farþegi að ná samkomulagi um leiðina í gegnum litakortið, og jafnvel þarf að ræða við aftursætisbílstjórann líka. Litasætin fyrir sauðfé eru þrjú (sem vitað er um), A, B og S, semsagt 3 bílar.
Lömb erfa annaðhvort bílstjóra eða farþega frá báðum foreldrum í hvert sæti og þarf að skoða öll þessi sæti til að vita hvernig lambið verður á litinn. A-sætið er frekast, síðan kemur B-sætið og loks S-sætið.
Hérna á eftir er sætaskipting litaerfða birt, frekasti liturinn í hverju sæti fyrst:
Awh sæti: Hvítt (bílstjóri)
Ag sæti: Grátt (bílstjóri)
Ab sæti: Golsótt (bílstjóri)
At sæti: Botnótt (bílstjóri)
Agt sæti: Grábotnótt (bílstjóri)
a sæti: hlutlaust (farþegi)
B sæti: Svart (bílstjóri)
b sæti: mórauður (farþegi)
S sæti: Hvítur/gulur (bílstjóri)
s sæti: flekkóttur (farþegi)

Á A- erfðavísinum leynast bæði hvítur litur, grár, botnóttur og golsóttur og hlutlaus. Ef annað foreldrið er hvítt/grátt/golsótt/botnótt verður lambið með einhvern þessara lita af því að þetta eru allt bílstjórar. Í þessu sæti verður hvíti liturinn ofan á öllum hinum því hann er langfrekastur. Ef lambið erfir lítið a frá báðum foreldrum, sem er eiginlega hálfgert stefnuleysi, fer B-sætið að ráða litnum.
S sæti er síðan dálítið sérstakt og getur haft áhrif á alla liti, meira að segja hvítan (aftursætisbílstjórinn sko). Ef lamb er með Awh og fær stórt S frá báðum foreldrum verður það hvítt með gulu í, ef lambið er með Awh og fær svo stórt S frá öðru foreldri en lítið s frá hinu foreldri verður það líka hvítt með gulu í af því að stóra S-ið ræður yfir því litla, en ef lambið er með Awh og fær lítið s frá báðum foreldrum verður það skjannahvítt, eða hreinhvítt.
Ef lamb er hins vegar með eitthvað annað en Awh og verður þar af leiðandi eitthvað annað en hvítt og fær síðan lítið s frá báðum foreldrum verður það flekkótt eins og Skræpa.
Þetta þýðir náttúrulega bara það að áhrif farþega og aftursætisbílstjóra eru stórlega vanmetin og er gott að þið vitið það næst þegar þið verðið farþegar í bíl.
Sömuleiðis þýðir þetta að hún Gola mín er með botnóttan lit í A-sæti, svartan lit í B-sæti og gulan lit í S-sæti þar sem hún er ekki flekkótt. Hún eignast þar með bara hvít lömb ef hvíti liturinn kemur frá pabba lambanna af því að ef hún væri með hvítan erfðavísi í sér væri hún sjálf hvít.
