
Mér hefur á undanförnum misserum sýnst að besta leiðin til að fá „áhorf“ á síður sé að vera með einhvers konar lista. Flestir listar sem ég hef séð snúast um hvernig á að halda karlpeningnum góðum, sem stjórnast mögulega af því að internetið hefir ákveðið að ég sem einhleyp kvenkind þurfi mest á því að halda. Ég nenni hins vegar ekkert að spá í slíkum listum en ákvað í staðinn að gera lista yfir nokkrar staðreyndir um sauðfé. Þessi listi er ekki tæmandi enda mjög margt sérstakt við íslensku sauðkindina. Þar með kemur mjög sennilega meira seinna 🙂
- Kindur geta bæði verið hyrndar og kollóttar. Ef þær eru með horn eru þær hyrndar (sumir segja hornóttar) en ef þær eru ekki með horn eru þær kallaðar kollóttar. Báðar tegundir geta stangað fast.
- Flestar hyrndar kindur eru með tvö horn en að auki eru til kindur með fjögur horn, þær kallast ferhyrndar.
- Talið er að forystufé (sérstök og bráðgáfuð útgáfa af fé) sé eingöngu til á Íslandi.
- Kindur eru með fjóra maga. Þeir heita vömb, keppur, laki og vinstur. Vinstrin er sá magi sem er sambærilegastur við maga mannkindarinnar.
- Kindur eru ekki með framtennur í efri gómi. Þær eru hins vegar með jaxla bæði uppi og niðri. Þær geta sömuleiðis bitið fast þrátt fyrir þetta efritannaleysi.
- Íslenskar kindur eru svokallað stuttrófukyn, sem þýðir það að þær eru með stuttan dindil en ekki langan hala eins og sum önnur kyn heimsins.
- Íslenskir sauðalitir eru frekar margir miðað við aðrar sauðfjártegundir. Til er hvítt, grátt, svart og mórautt. Svo er til grábotnótt, svarbotnótt og móbotnótt. Þar að auki grágolsótt, svargolsótt og mógolsótt. Ofan á allt þetta getur fé verið gráflekkótt, svarflekkótt, móflekkótt og gulflekkótt. Sömuleiðis grábotnuflekkótt, svarbotnuflekkótt og móbotnuflekkótt og þar að auki grágolsuflekkótt, svargolsuflekkótt og mógolsuflekkótt. Aukinheldur er til grámórautt og golsubotnótt. Þar eru ótalin öll mismunandi litaafbrigðin af flekkóttu. Síðan en ekki síst getur fé verið hreinhvíttog eflaust er ég að gleyma einhverju. Þá eru til mismunandi litaheiti á milli landshluta.
- Kindur eru með tvær tegundir af hárum, ytra og innra byrði, sem nefnast tog og þel. Togið er langt, harðgert og vatnsþétt en þelið er fíngert, mjúkt og einangrandi.
- Kindabað. Já þið lásuð rétt, á ákveðnu tímabili voru kindur baðaðar á hverju ári. Það kom til af því að kláðamaur hafði borist til landsins með innfluttu fé og var engin önnur leið á þessum tíma en að baða féð upp úr kláðamaursdrepandi efni til að losna við hann. Það er meira að segja til svona kindabaðkar í fjárhúsunum hjá okkur en það var blessunarlega aldrei notað því á seinni árum fannst bóluefni við þessum ófögnuði og hefur hann, eftir bólusetningu í nokkur skipti, ekki fundist hér í fjölda ára.
- Talið er að íslenska þjóðin hefði ekki lifað af hinar myrku miðaldir án sauðkindarinnar og afurða hennar.
- Kindur eru mjög sundfimar… tjah, kannski er fimar ekki rétta orðið en þeim gengur allavega ágætlega að synda. Fljóta um á vömbinni, stýra sér áfram með fótunum og tekst þetta verkefni yfirleitt ljómandi vel, sérstaklega þegar þær eiga ekki að gera það…
- Einhverra hluta vegna hefur orðið sauður í gegnum tíðina umbreyst yfir í samheiti yfir rata landsins. Það finnst mér afar ósanngjarnt enda eru sauðir oftar en ekki virkilega gáfaðar skepnur.
