
Á sauðfjárbúum er misjafnlega mikið að gera eftir árstíðum. Vorið er annasamasti tíminn en veturinn rólegasti tíminn, og á veturna er helsta verkefnið að fóðra klaufdýrin þó ýmis önnur verkefni séu til staðar að auki.
Gjafafyrirkomulag á bæjum er mismunandi. Hjá okkur eru garðar sem ná endilangt á milli tveggja króa. Gefið er í þessa garða tvisvar á dag, þar sem einungis er pláss fyrir hálfs dags fóður í einu án þess að restin dragist niður í kró. Þarf því að vera nægt pláss við garðann til að allar kindur í hverri kró komist til að fá sér að éta á sama tíma. Sumstaðar eru hins vegar svokallaðar gjafagrindur, en þær eru þannig að kindurnar eru í stórri stíu og í ákeðnum hluta hennar er gjafapláss þar sem er hægt að setja mikið magn af heyi í einu og endist heyskammturinn í 2-4 daga í einu. Í slíkum fjárhúsum er ekki skilyrði að allar kindur komist að gjafagrindinni á sama tíma en þar sem heyið endist svo lengi í þeim skiptast kindurnar meira á að éta en við garðafyrirkomulagið.
Hirðingu kinda fylgir síðan að sjálfsögðu það undirstöðuatriði að veita þeim stöðugan aðgang að hreinu og góðu vatni en vatnsgjöf til dýra er almennt kölluð brynning eða vötnun. Flestir eru núorðið með sjálfbrynningu, sem eins og nafnið gefur til kynna fyllist sjálfkrafa eftir því sem vatnsmagnið í viðkomandi ílátum lækkar.
Áður fyrr var brynnt í stampa eða dalla og var þá einn stampur í hverri kró. Það tók mikinn tíma að fylla á þessa stampa tvisvar á dag og þegar að sauðburði kom jókst þessi tími enn meira þar sem þá þurfti að vera sér dallur fyrir hverja stíu (og um 20 stíur í hverri kró). Það var þess vegna gríðarleg vinnuhagræðing þegar við settum upp sjálfbrynningu í húsin hjá okkur en það sem meira er um vert er að þetta var mikill munur fyrir kindurnar. Þegar stamparnir voru í krónum var frekar auðvelt fyrir kindurnar að skíta í vatnið (stundum fékk ég það á tilfinninguna að þær gerðu sér að leik að miða ofan í) og þurftum við því að vera vel vakandi fyrir því að skipta um vatn þegar það gerðist. Með sjálfbrynningunni ná þær hins vegar ekki að nýta vatnsílátin sem salerni. Þær hafa vissulega reynt, jafnvel með tilhlaupi, en ekki tekist enn. Er niðurstaða sjálfbrynningar þar með að kindurnar blessaðar fá hreint og fínt vatn hvenær sem þær lystir og við losnum við brasið og vatnssóunina sem fylgir því að skipta um vatn í stömpunum 10 sinnum á dag.
Hjá okkur er vinnufyrirkomulagið við gjafir þannig að gefið er kvölds og morgna og sér systir mín um gjafirnar. Garðarnir eru sópaðir einu sinni á dag til að losna við heyrestar sem kindurnar vilja ekki éta, og sér faðir minn um það. Þess má geta að þessar heyrestar eru kallaðar moð. Ég og mamma komum svo reglulega í fjárhúsin og gerum kindurnar frekar með því að venja þær á að éta kjarnfóður úr hendi.
Það er síðan gefið misjafnlega gott hey eftir hverju tímabili en farið verður nánar út í það síðar, semsagt æsispennandi færslur í bígerð 🙂
