Vinnuhagræðing

16808672_10155015206586112_583694138_n
Sykurpúðar í sólbaði

Í síðustu viku minntist ég á vinnuhagræðingu við brynningar. Það er hins vegar ekki eina vinnuhagræðingin sem við höfum tileinkað okkur í gegnum tíðina.

Fyrstan í þessari umræðu ber að nefna afrúllarann okkar blessaðan, eða afruglarann eins og hann er gjarnan kallaður hér á bæ, og gjafavagninn góða. Það skiptir nefnilega miklu máli að vinnuaðstaða við gjafir sé góð þar sem það er sá vinnuþáttur sem á sér stað yfir lengri tíma en flestir aðrir vinnuþættir.

rullustaedan
Rúllustæðan

Það er semsagt þannig að nú til dags hirðum við heyið okkar í svokallaðar rúllur sem flestir kannast sennilega við að hafa séð úti á túni í sveitum landsins en þær líta út eins og sykurpúðar á sterum.

Við notum síðan gjafavagn til að keyra heyið fram á garðana. Áður notuðum við hjólbörur til þess arna en gjafavagninn sem nýttur er í dag er mun stærri og þar með þarf færri ferðir á hvern garða en með hjólbörunum blessuðum.

Í fyrndinni (jæja kannski ekki alveg í fyrndinni heldur meira síðan við fórum að heyja í rúllur) settum við rúllu inn á hlöðugólf, hoppuðum upp á hana með heyskera í hendinni og skárum í tvennt með fyrrnefndum skera. Heyskerinn leit þannnig út að á öðrum endanum var hálfgert hnífsblað, á hinum endanum var handfang og þar á milli var fótstig. Til að skera rúlluna þurfti svo að vísa blaðinu niður á rúlluna, halda í handfangið og hoppa ofan á fótstigið ef gjörningurinn átti að skila tilætluðum árangri, þ.e. að skera rúlluna í sundur. Þetta var ekki áhættulaus aðgerð þar sem jafnvægi viðkomandi þurfti að vera í fullkomnu lagi ef ekki átti illa að fara. Það kom einmitt einu sinni fyrir mig að hoppa upp á rúllu, gera heiðarlega tilraun til að hitta ofan á fótstigið (sem mistókst alveg virkilega mikið) og detta þar með kylliflöt ofan af rúllunni niður á steinsteypt gólf. Ein rúlla er ríflega metri á hæð þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig var að detta ofan af henni og með tilþrifum að auki þar sem ég var jú að reyna af krafti að skera rúlluna. Ég slapp nú reyndar vel og laskaðist ekki mikið en það var einskær heppni og þessi vinnuaðferð er ekki til eftirbreytni.

Við þróuðum gjafirnar svo smám saman eftir því sem við kynntumst fleiri aðferðum við að gefa rúllur og fórum að láta rúllurnar standa upp á endann, en þannig datt heyið utan af kjarnanum í rúllunni með lítilli fyrirhöfn og þurfti ekkert að gera annað en að moka því upp í gjafavagninn.

Þetta verk, þó það væri áhættuminna, var hins vegar ekki síður erfitt líkamlega en þegar við skárum rúlluna ofanfrá. Þar sem ég er slæm í baki fannst mér virkilega erfitt að moka öllu heyi upp í gjafavagninn og var hætt að geta gefið á tímabili, þegar ástandið var sem verst á miðjustykkinu.

16780143_10155016468341112_1319355996_n
Afruglarinn góði ásamt gjafavagninum

Svo kom afruglarinn. Hann er þannig úr garði gerður að ein rúlla er sett í hann í senn með dráttarvélinni. Hann er svo með mótor og færibönd sem hrista og dusta rúlluna til og mata heyið ofan í gjafavagninn.

Við þurfum semsagt núorðið bara að setja heyið með dráttarvélinni í afrúllarann, setja gjafavagninn undir og hann fyllist sjálfkrafa bara alveg eins og fyrir galdra. Mokstur á heyi heyrir nánast sögunni til og allir eru betri í skrokknum á eftir.

Já, vinnuhagræðing skiptir svo sannarlega máli 🙂


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s