
Horn eru fyrir þá sem ekki vita staðsett á höfði kinda, til hliðar við eyrun. Hornið sjálft er búið til úr sama efni og er í nöglunum á okkur, en innan í horninu er bein sem er kallað sló. Bæði hornið og beinið vaxa svo með kindinni.
Horn eru misjöfn útlits, bæði að lögun og lit, og þar að auki eru þau misjafnlega mörg eftir kindum. Flestar kindur eru með tvö horn, sumar kindur eru með engin horn og síðan eru til kindur sem eru með fjögur horn og jafnvel fimm. Þarna spila erfðirnar inn í, alveg eins og með sauðalitina blessuðu, og eru þetta helstu afbrigði af hornalagi:

Ferukollótt – kollótt kind sem er með ferhyrndan erfðavísi
Ferhyrnd – kind með fjögur horn
Kollótt – kind með engin horn
Hyrnd – kind með tvö horn
Allar kindurnar okkar eru hyrndar, sem stafar fyrst og fremst af því að okkur finnst það bæði þægilegt og fallegt. Það er sömuleiðis afar auðvelt að rækta hyrndar kindur þar sem það er ekki hægt að fá kollóttar kindur undan hyrndum en það er hins vegar hægt að fá hyrndar kindur undan kollóttum. Síðan er misjafn smekkur á þessu eins og gengur, sem betur fer, og eru margir bændur sem finnst skemmtilegast að vera með allar tegundir af hornum eða hornaleysi. Það er afar gott því eins og með margt annað í sauðfjárrækt, já og íslenskri búfjárrækt í heild sinni, þá eru ýmsir eiginleikar til hér á landi sem eru sérstakir á heimsvísu og mega ekki glatast.
Horn eru síðan eins misjöfn og þau eru mörg. Kindur geta verið úthyrndar, afturhyrndar, sívalhyrndar, stórhyrndar, smáhyrndar og ýmislegt fleira, en þessi heiti á hornalagi eru

gjarnan misjöfn eftir landshlutum.
Hrútar eru með mun sterklegri horn en kindur og kemur það til af náttúrulegum orsökum. Það er nefnilega þannig að í gegnum náttúruval hafa hrútar þurft að berjast, í bókstaflegri merkingu, um hylli kinda til að ná að koma sínu erfðaefni á framfæri. Eins og hjá sumum öðrum kynjum er það þessi sterka þögla týpa sem hefur gjarnan vinninginn. Eitthvað í þróun sauðkindarinnar varð til þess að hausinn þótti hentugastur í þessa valdabaráttu og eru hrútar því með mun sterklegri háls og hauskúpu en ærnar, ásamt því að hornin á hyrndum hrútum eru verklegri en horn kinda. Sauðir lenda þarna einhvers staðar á milli, með stærri horn en kindur en minni horn en hrútar.
Hyrndar kindur eru misjafnlega vel hyrndar og geta hornin jafnvel átt það til að tak

a stefnu beint inn í hausinn. Áður en það gerist þarf annaðhvort að saga af hornunum, sem kallast að hornskella, eða að venja þau sem kallað er. Þá er vír strengdur á
milli hornanna og stefnu þeirra breytt með því. Eru sauðfjárbændur mjög færir í að sjá hvenær hornin stefna í óefni. Ef ekkert er hins vegar að gert geta hornin vaxið inn í hausinn á kindinni, valdið gríðarlegum kvölum og jafnvel dauða. Þegar horn eru söguð er þess gætt að ekki sé farið í beinið inni í hornunum. Það er semsagt bara eins og þegar neglur eru klipptar, maður finnur ekkert fyrir því nema sé klippt ofan í kviku og það forðast sauðfjárbændur að gera.
