Ég talaði í síðustu viku um horn. Það er hins vegar margt fleira hægt að segja um horn en það sem kom fram í þeim pistli og meðal annars koma horn við sögu í fóðrun sauðfjár.
Núna ætla ég að fjalla um lömb og gemlinga. Lömb eru lömb, lambhrútar

og gimbrar, þangað til þau breytast í gemlinga en gemlingar er orð sem er notað yfir lömb þegar þau verða veturgömul. Gamla reglan er sú, að því er mig minnir, að lömbin breytist í gemlinga við sumarmál en þetta getur verið misjafnt eftir landshlutum og hefur jafnvel breyst eitthvað á milli áratuga líka. Stytting á gemlingi er svo gemsi sem hefur skýra skýrskotun í nútímasamfélagið og er ekkert nema gaman að því.
Kindur verða yfirleitt lambfullar fyrsta veturinn. Þó er farið eftir því í hvernig ástandi gimbrarnar eru og ef þær eru eitthvað minni en gengur og gerist er þeim ekki hleypt á stefnumót.
Þegar gimbrarnar koma á hús á haustin er þeim gefið sterkt fóður en það er annað orð yfir

orkuríkt fóður. Þegar kemur að fengitíma er gimbrunum hins vegar gefið orkuminna fóður og kemur það til af því að orka í fóðri hefur áhrif á egglos. Ef þær fá sterkt fóður eru meiri líkur til að þær losi tvö egg í einu og verði þar með tvílembdar að vori. Það er hins vegar betra að þær séu einlembdar þar sem þær þurfa að nota hluta af orkunni úr fóðrinu í að stækka sjálfar. Eftir fengitíma er síðan farið að auka fóðrið við gimbrarnar aftur til að þær geti bæði stækkað sjálfar og sinnt fóstrinu.
Það er síðan skemmtilegt við hornin að hægt er að fylgjast með framförum í hyrndum lömbum eftir því hvernig hornin á þeim þróast. Það er þannig að þegar lömb fæðast eru hyrndir hrútar með smá hnubba en ekkert sést á gimbrum. Þegar lömbin koma heim að hausti eru horn hrútanna búin að stækka og horn gimbranna farin að sjást og rúmlega það.
Yfir veturinn, ef það er framför í lömbum og þau stækka og þroskast á eðlilegan máta, sést ákveðið fyrirbæri í þeim hyrndu sem kallast hornahlaup. Hornahlaup þýðir að hornin á gemlingunum eru að lengjast og stækka og sést á því að það er litamunur á gamla hluta hornsins og þeim nýja. Þetta þýðir að viðkomandi gemlingur er í framför, er að stækka eðlilega og líður vel þar sem hornin stækka ekki öðruvísi. Þess vegna er alltaf gaman að sjá þegar hornahlaupið byrjar 🙂

Thank you for writing thiis
Líkar viðLíkar við