Nýjasta tækni og vísindi

Afruglarinn2
Afruglarinn lítur mun betur út með snotran gemling og lömb í forgrunni 🙂

Ef þið haldið að sauðfjárbændur sé afturhaldsseggir hinir mestu sem sakna einskis meira en torfkofanna þá skuluð þið sko hugsa ykkur tvisvar um, bændur eru nefnilega tæknitröll hin mestu!

Jæja kannski ekki endilega tæknitröll en við bændur höfum hins vegar verið ágætlega dugleg við að taka tæknina í okkar þjónustu t.d. með verkfærum eins og afruglaranum, sem ég hef sagt frá áður, og léttir vinnu við gjafir svo um munar.

Núna ætla ég að fjalla um myndavél. Við, ásamt fleiri bændum, fengum okkur nefnilega eftirlitsmyndavél í fjárhúsin síðastliðið vor. Þessi myndavél er nettengd og getum við þannig fylgst með kindunum þó að við séum ekki í húsunum í gegnum app í símanum, í tölvunni og jafnvel í sjónvarpinu. Hún snýst í 360 gráður, er hengd upp í loftið og náum við þannig yfirsýn yfir öll húsin og getum fylgst með því hvort ekki er allt eins og á að vera. Þessi tæknibylting þýddi það líka að við fengum nettengingu í fjárhúsin sem var stór plús, hefur fjárhúsasnöppum heldur betur fjölgað á eftir sem er skemmtilegt… fyrir okkur… kannski ekki alla… Snappið er nú reyndar ekki stærsti kosturinn við fjárhúsanetið heldur það að nú getum við kíkt í Fjárvís í símanum hvenær sem við þurfum að finna eitthvað í skýrsluhaldinu.

Myndavélin
Útsýnið úr myndavélinni góðu

Myndavélina er svo gott að hafa, sérstaklega í byrjun og enda sauðburðar. Í byrjun sauðburðar er ekki orðin stöðug viðvera í húsunum og þá er ágætt að geta kíkt í vélina til að sjá hvort einhver sé að gera sig líklega til að bera. Í endann á sauðburðinum er svo afskaplega þægilegt að geta kíkt í vélina og athuga hvort eftirlegukindurnar séu nokkuð að gera sig líklegar til burðar, en þegar 2-3 kindur eru eftir er þægilegt að geta leyft sér að fara úr húsunum því á þeim tíma fara störf utan fjárhúsanna að verða aðkallandi.

Eins getur verið afar skemmtilegt að fylgjast með atferli kinda í gegnum myndavélina því sumar þeirra haga sér allt öðruvísi þegar mannskepnan er hvergi nálægt. Ég tók sérstaklega eftir þessu hjá henni Skvísu minni heitinni í sauðburðinum í fyrra. Hún varð 10 vetra þá um vorið og var alltaf afurðasöm, elskaði köggla meira en allt en var samt alltaf kurteis og frekjaðist aldrei framfyrir í nammibiðröðinni, semsagt hefðarkind á allan hátt.  Það kom hins vegar í ljós með nýja njósnabúnaðinum að hún sýndi af sér allt aðra hegðun þegar mannfólkið var fjarri góðu gamni. Ég fylgdist einu sinni með henni í myndavélinni ganga yfir króna og ég held að það hafi ekki verið ein kind sem hún sleppti því að stanga á leiðinni. Þegar hún bar svo síðasta vor settum við hana ekki í stíu heldur létum hana vera áfram með þeim óbornu í krónni, þar sem við treystum þetta lífsreyndri

Skvísa
Skvísa með hrússa sinn

kind vel til að passa lambið sitt þar. Eins og sést síðan á myndinni hér til hliðar þá ekki einungis gekk henni vel að passa hrússa sinn í krónni heldur sá hún staðfastlega til þess að engin hinna kindanna kæmu nálægt!
Drottningar eins og Skvísa heitin þurfa nefnilega sitt pláss 🙂


2 athugasemdir við “Nýjasta tækni og vísindi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s