Á þriðjudaginn var fósturtalning hér á bæ en til að enginn misskilningur skapist þá var verið að telja fóstur í kindunum en ekki kvenfólkinu á bænum.
Fóstrin í kindum eru talin annars vegar til að hægt sé að stýra fóðrun kindanna eftir því

hvað eru mörg lömb í þeim, og hins vegar til að skapa hagræði á sauðburði. Fóðruninni er gott að stýra þar sem það er ekki heppilegt að einlembdar kindur fái of orkumikið fóður því þá er hætt við að lömbin verði of stór í fæðingu. Sömuleiðis þarf að passa að þær kindur sem eru með tvö lömb eða fleiri fái nógu orkumikið fóður til að lömbin verði ekki of lítil. Það er svo afar gott að vita hversu mörg lömb hver kind eignast til að ekki sé farið frá þeim of snemma eftir burð á meðan fleiri lömb eiga eftir að birtast, eða að verið sé að hanga yfir kind af því að mögulega komi annað lamb hjá henni þegar í raun er ekki von á fleirum. Með fósturtalningunni er vitað nákvæmlega hvað hver kind muni eignast mörg lömb og er gríðarlegur vinnusparnaður fólginn í því. Ekki veitir af á sauðburði þar sem þá er yfirleitt nóg að stússast. Sömuleiðis er áhættuminna að venja undir kindur (koma aukalambi í fóstur hjá þeim) ef vitað er að ekki er von á lambi númer tvö frá þeim.
Við fósturtalningu í kindum vinnur ákveðið fólk sem er búið að þjálfa sig upp í starfinu og fjárfesta í sónartæki. Fósturtalningin má ekki vera of stuttu eftir fengitíma, þar sem þá sést ekki hvort kindin er fengin eða ekki þar sem fóstrið er svo lítið enn. Talningin má heldur ekki vera of löngu eftir fengitíma þar sem þá eru fóstrin orðin of stór til að hægt sé að sjá með vissu hvað þau eru mörg.
Talningin fer þannig fram að kindurnar fara inn í hálfgert búr þar sem þær eru stoppaðar
af, nemi lagður að kvið þeirra og svo sér talningamaðurinn á skjá hversu mörg fóstur eru í hverri kind. Sést skjárinn á ómtækinu á meðfylgjandi mynd (mér hefur reyndar ekki enn tekist að skilja hvernig er hægt að sjá lömb út úr þessum klessum á skjánum en ég þarf nú ekki að skilja allt)
Það er almennt talið æskilegast að gimbrarnar séu með eitt lamb og fullorðnu ærnar með tvö lömb. Hlutirnir fara hins vegar yfirleitt ekki eins og maður ætlar, sumar fullorðnu kindurnar eru með þrjú lömb á meðan sumar eru með eitt og jafnvel ekkert. Þetta árið kom ekki alveg nógu vel út hjá okkur þar sem of margar kindur voru einlembdar, eða hálfgeldar eins og það er stundum kallað. Þegar svoleiðis árar grípur maður til Pollýönnu og huggar sig við að eitt lamb er betra en ekki neitt.
Hins vegar virðist sem sauðburður þetta árið verði með lengsta móti. Það kom nefnilega í ljós í talningunni að ein ær hefur verið að gamna sér með karlkyninu áður en féð kom á hús í haust og er því áætlað að sauðburður hefjist eftir tvær vikur. Sömuleiðis kom í ljós að á fengitímanum hefur einn hrúturinn ekki náð að uppfylla starfskröfur. Sá hrútur var leystur frá störfum en þetta þýddi hins vegar að nokkrar ær festu fang seinna en þær hefðu átt að gera og verða sauðburðarlok því væntanlega ekki fyrr en einhvern tíma í júlí. Þrír mánuðir í sauðburði, hvað er það á milli vina… Snemmburðurinn þetta árið er samt ekki alveg eins vandræðalegur og fyrir nokkrum árum þegar sauðburður hófst sama dag og verið var að telja og meira að segja á sömu klukkustund… ekki á hverju ári sem það gerist, sem betur fer 🙂