… eða sundurdráttur?
Í kjölfarið á fósturtalningunni í síðustu viku fylgdi nefnilega óhjákvæmilega það verk að draga blessaða sauðkindina sundur og saman, þó ekki í háði.
Þegar komið er í ljós hvaða kindur eru með ekkert lamb, eitt lamb, tvö lömb eða fleiri lömb þarf nefnilega að flokka þær í krærnar eftir lambafjölda, svo auðveldara sé að fóðra þær eftir þörfum. Sömuleiðis þarf að skrifa niður númerið á kindum eftir lambafjölda svo vitað sé á sauðburði hverju er von á úr hverri kind.
Við skelltum okkur í þetta verkefni á laugardaginn síðasta og notuðum til starfans ágætis flokkunargang sem við eigum.

Aðferðir við að draga fé í sundur hafa verið ýmiskonar í gegnum árin. Þegar ég var lítil þekktist vinnuhagræðing minna (og já ég veit að ég hef minnst á þetta orð áður en það er bara mjög mikilvægt!). Í þá daga tíðkaðist að draga kindur króarenda á milli til að flokka þær, sem var hvorki gott starf fyrir bóndann (sem fékk iðulega í bakið) né kindina (sem átti fullt í fangi með að nýta allar fjórar lappirnar til að vera á móti markaðri stefnu). Verklag við drátt þróaðist síðan með tímanum og fyrir einhverjum árum fórum við að nýta innrekstrarganginn til að flokka kindur og lömb inn í mismunandi krær. Enn þurfti að draga þær þó um styttri leið væri að ræða.

Síðan festum við kaup á færanlegum sundurdráttargangi og flokkunarhliði sem sést hér til hliðar. Það er óhætt að segja að þessi fjárfesting hafi verið bylting, bæði fyrir okkur og kindurnar. Með flokkunarhliðinu getum við vísað kindunum í tvær áttir eftir því hvernig hliðið er opið. Áttir og stefnur eru þannig markaðar fyrirfram og kindurnar ganga bara í rólegheitum í gegnum ganginn, þangað sem þær eiga að fara. Þar af leiðir að enginn þarf að draga neinn og enginn þarf að þrjóskast neitt (eða svo gott sem) allavega, mun betra fyrirkomulag bæði fyrir fólk og fé.
Núna eru einlembur á sama garða, tvílembur á sömu görðum og þrílemburnar komnar á sama garða og lömbin sem þýðir að þær fá sparihey í öll mál.
Þó að okkur finnist vinnuhagræðing hin mesta af fósturtalningunni og sundurdráttarganginum eru kindurnar okkar ekki allar sammála því að þetta sé góð hugmynd. Til dæmis er Frenja einlembd sem þýðir að nammiskömmtunum hennar hefur snarfækkað frá talningu. Frostrós er hins vegar alveg himinlifandi yfir þessu fyrirkomulagi enda er hún þrílembd, fær þess vegna að vera í lúxussvítu með lömbunum og og fær nammigjöf úr lófa að auki! Já, svona er stéttaskiptingin í fjárhúsunum þessa dagana 🙂

Þetta var skemmtileg lesning með morgunkaffinu,takk fyrir mig 🙂
Líkar viðLíkar við