Rúin inn að skinni…

 

… og rúmlega það!

Umfjöllunarefni vikunnar er rúningur og er það afar erfitt viðfangsefni. Erfiðið er þó ekki fólgið í því að ég beri eitthvert sérstakt líkamlegt erfiði af þessu starfi, enda tek ég ekki sjálf af kindunum heldur er mitt helsta hlutverk við þennan gjörning að fylgjast með, gagnrýna og vera með almenn leiðindi. Nei, aðalerfiðið felst í því að sögnin að rýja er afar erfið í beygingu og hef ég eiginlega ekki enn komist til botns í því hvað er talið réttur ritháttur.

Rúningur á sér oftast stað tvisvar á ári, haust og vor. Haustrúningur er ósköp einfaldlega kallaður haustrúningur en vorrúningur er hins vegar yfirleitt kallaður snoðrúningur. Það kemur væntanlega til af því að ullin er mun minni á þeim tíma, enda ekki svo langt á milli rúningstímabila. Semsagt, óttalegt snoð.

rýja
Rúningur í fullum gangi

Tilgangur snoðrúnings hér á bæ er margþættur. Í fyrsta lagi er verið að taka ullina af kindum fyrir vorið svo þeim verði ekki of heitt yfir sumartímann. Í öðru lagi er verið að koma í veg fyrir að kindur lendi í svokölluðu ullarhafti, en það getur gerst ef kindur eru aldrei rúnar. Kindur hafa nefnilega þann merka eiginleika að þær skipta um ull einu sinni á ári og ef gamla ullin var bæði loðin og þófin getur það leitt til þess að hún losni einungis til hálfs þegar kindur eru komnar út, flækist í fótum þeirra og verði til trafala. Þriðja ástæðan er síðan að haustullin verður betri að gæðum ef að gamla ullin var tekin utan af að vorinu.

Máltækið rúin inn að skinni er síðan ekki algerlega rétt þar sem það er alltaf skilinn eftir hýjungur af ull. Semsagt, ullin er ekki skafin af kindunum alveg niður í skinn eins og stundum er gert við rúning á fólki.

Hér á bæ sér Hallfríður systir um að rýja, eins og sést á mynd hér að ofan. Það skal reyndar viðurkennt að það rétt svo tókst að ná frekar óhreyfðri mynd enda ferðast hendin á þjálfuðu Hálfrúin kindrúningsfólki jafn hratt og norðanáttin í Víðidalnum. Með þeirri aðferð sem hún notar eru kindurnar lagðar á bossann og bakið á meðan á rúningi stendur en aldrei á bumbuna, og þannig bera kindurnar ekki skaða af.

Bæði vor og haust er tekin misjafnlega mikil ull af kindum eftir aldrei og holdastigi. Eldri ám er þannig leyft að vera í ullinni af því að ullin vex hægar á þeim en yngri kindunum, og ullin þarf að vera komin vel af stað aftur áður en ærnar fara út í vorið.  Sumar kindur eru alrúnar og öll ullin klippt af. Sumar kindur eru hálfrúnar en þá er ullin klippt af frampartinum eingöngu. Þetta er oft gert við miðaldra kindur. Elstu kindurnar eru svo ekki rúnar, enda velþekkt að kulvísi eykst oft með aldrinum.

Kindurnar eru síðan misjafnlega samstarfsfúsar við þetta. Sumar vilja til dæmis alls ekki fara í klippingu en svo eru aðrar sem eru dauðfegnar að fá rúning. Sem dæmi er hún Jara mín alltaf silkislök á meðan á rúningi stendur og meira að segja hefur hún átt það til að stanga kindur sem hafa ekki verið jafn stilltar í rúningi og hún, ekki amalegt fyrir rúningsfólk að hafa svona hjálparkind 🙂

alrúin2
Alrúnar kindur í slökun eftir rúning 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s