Skítverkin

Lamb1

Það á við um sauðkindina eins og ýmsar aðrar dýrategundir að fóðrið sem fer inn um framendann skilar sér að hluta til út um afturendann, þó á töluvert breyttu formi. Það fer sennilega vel á því, í ljósi þess að (líklega) mest lesna túrhestafrétt vikunnar fjallaði einmitt um þetta, að ræða aðeins um aukaafurð þá sem skilar sér þarna megin frá í pistli vikunnar.

Það vill nefnilega þannig til að það eru mikil verðmæti fólgin í bæði skít og hlandi, sem kallast yfirleitt einu orði búfjáráburður. Verðmæti þessi eru fólgin í því að í grasinu er mikið af næringarefnum og nýtir kindin þau ekki öll, heldur skilar hluta þeirra út á formi búfjáráburðar. Honum er síðan dreift út á tún aftur, og þannig nær grasið að endurvinna næringarefnin úr honum. Með þessari endurnýtingu er hægt að spara töluvert í kaupum á tilbúnum áburði, ásamt því að þetta er afar umhverfisvænt. Til að þetta sé hægt er þarft að vera með geymslu fyrir búfjáráburðinn, eins konar rotþró, sem getur verið á ýmiskonar formi.

Fjárhúsin okkar eru á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er okkar útgáfa af rotþró, steyptur áburðarkjallari sem er hægt að keyra inn í á dráttarvél til að moka villimeyút. Á efri hæðinni eru síðan kindurnar og á milli hæða er steypt rimlagólf.  Það eru til ýmsar útgáfur af gólfefni auk þeirrar sem er hjá okkur, s.s. timbur, plast, málmristar og jafnvel blanda af þessu öllu saman. Þar að auki er hægt að vera með kindurnar á taði svokölluðu, en það þýðir að það er bara ein hæð í fjárhúsunum og búfjáráburðurinn safnast upp undir kindunum yfir veturinn.

Aðalatriðið í þeim húsum sem eru með áburðarkjallara er að búfjáráburðurinn hafi greiða leið niður á neðri hæðina, og þess vegna er svolítið bil á milli rimlanna. Þetta bil þarf síðan að vera mátulegt, nógu breitt til að skíturinn komist niður en ekki það breitt að hætta sé á að kindurnar festi sig í því.

Það sem er lykilatriðið í þessu öllu saman, sama hvernig gólfið er útbúið, er að kindunum líði vel. Næst það annars vegar með því að gólfið hjá þeim sé þurrt, og hins vegar með því að hafa loftræstinguna í lagi í fjárhúsunum en gott loft skiptir gríðarlega miklu máli fyrir velferð kindanna. Góð loftræsting gegnir þar að auki lykilhlutverki í að halda gólfunum þurrum.

Stundum hef ég heyrt fólk hafa áhyggjur af að kindunum þyki mögulega eitthvað subbulegt að liggja á sama gólfi og þær kúka á. Mér hefur hins vegar virst að kindum sé nokkuð sama um það, enda er það alveg eins líklegt að kindur sem eru úti leggist í vænan bing af búfjáráburði eins og á einhvern annan stað. Það sem skiptir þær mestu tel ég vera að undirlagið sé þurrt. Já, svona eru þær misjafnar kröfurnar á milli dýrategunda.

Af því að ég þekki síðan engan sem finnst gaman að horfa á myndir af skít eru myndir vikunnar af sætum lömbum í staðinn 🙂

Lamb2


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s