Ég hef áður minnst á einstaklingsnúmer kindanna, en hver kind á sitt eigið númer eða kennitölu sem fylgir henni út ævina.
Það er hins vegar ekki nóg að hver kind eigi sitt númer heldur þarf það einhvern veginn að sjást á henni, enda hæpið að ætlast til þess að kindurnar muni sitt eigið númer.
Nú fer að bresta á með sauðburði hvað úr hverju en það er einmitt á sauðburði sem lömbin fá sitt fyrsta númer. Er því ekki seinna vænna að lýsa aðeins nánar þessum kindamerkingum.
Kindur eru merktar á tvennan hátt. Annars vegar fá þær merki í eyrað þar sem stendur á hvaða bæ þær eru frá og hvað einstaklingsnúmerið þeirra er, semsagt eru allar kindur með eyrnalokk. Hins vegar eru þær markaðar en það er aldagömul hefð hér á landi að klippa eyrað á lömbum til samkvæmt ákveðnu formi. Ástæðan fyrir því að þetta er ennþá gert, þrátt fyrir hina nýmóðins eyrnalokka, er að það kemur stundum fyrir að kindurnar týna eyrnalokknum sínum og ef þær væru ekki markaðar myndi enginn vita hvar þær ættu heima. Það hefur sem betur fer orðið sjaldgæfara að merkin detti úr eftir því sem einstaklingsmerkin batna að gæðum og heyrir nú til undantekninga.
Eyrnamörk eru margskonar að gerð og samkvæmt landsmarkaskrá eru til 63 tegundir af mörkum í heildina. Nokkur af þessum mörkum hafa hins vegar verið bönnuð á síðustu áratugum, þar sem þau þóttu of groddaleg (semsagt, tekið of mikið af eyranu). Mörkin eru síðan þannig að sum eru sett í broddinn á eyranu en sum í hliðina á eyranu. Þessi hliðarmörk geta síðan verið bæði framan og aftan á, og jafnvel báðu megin á eyranu.
Samkvæmt nýjustu velferðarreglugerð sauðfjár er að auki tilgreint að lömb þurfi að marka áður en þau verða vikugömul, en eftir þann tíma þurfa þau deyfingu við mörkun. Skýringin á þessum tímamörkum er að blóðflæðið í eyrunum eykst eftir því sem lömbin eldast. Best er að marka lömbin á fyrsta eða öðrum sólarhring þar sem þá er ekki komið mikið blóðflæði í eyrun. Á þessum tíma heyrir til undantekninga ef lömbin finna fyrir mörkuninni.
Á árum áður, áður en eyrnalokkarnir komu til sögunnar, tíðkaðist það að hver fjölskyldumeðlimur átti sitt mark og gátu því verið ýmsar útgáfur af mörkum á hverjum bæ. Landsmarkaverðir þurftu síðan að passa upp á að mörk væru ekki of lík, og máttu engir tveir vera með sama mark nema mjög langt væri landfræðilega á milli þeirra.
Hér á bæ eru fjögur mörk í notkun. Aðalmarkið, sem er notað fyrir flesta tvílembinga, er fjöður aftan hægra og hvatt vinstra. Við erum svo með sérmark fyrir einlembinga sem er fjöður aftan hægra, sneitt framan hægra og hvatt vinstra. Að auki eigum við systur sérmörk. Hallfríður á markið heilrifað hægra og stúfrifað vinstra. Mitt mark er svo heilrifað hægra, biti aftan hægra og hvatt vinstra.
Þess má svo til gamans geta að samkvæmt frásögnum frá fornu fari er mark skrattans þrírifað í þrístíft og þrettán rifur ofan í hvatt. Sem betur fer er það ekki notað enda liti það sennilega ekki fallega út 🙂

Fín upprifjun og hvatning um að ganga vel um sinn bústofn.
Líkar viðLíkar við