Gleðilegt sumar!

Hrútar2

Í dag er sumardagurinn fyrsti og finnst mér alltaf gaman þegar hann mætir á svæðið, þó að hann sé nú ekkert endilega neitt sérstaklega sumarlegur veðurfarslega séð.

Það er einhver sérstök tilfinning sem fylgir því að horfa á náttúruna vakna á vorin. Fuglasöngurinn byrjar að óma um haga, sólin kíkir fyrr yfir fjallstoppinn með hverjum morgninum, haginn byrjar að grænka, lömbin fæðast og náttúran fyllist af lífi.Féskúfur

Þar sem sumardeginum fyrsta fylgir ýmiskonar hjátrú, svo sem að gott sé að vetur og sumar frjósi saman, held ég að það sé ekki úr vegi að fjalla í dag um ýmiskonar hjátrú sem fylgir blessuðum kindunum okkar. Þær hafa nefnilega fylgt okkur allt frá landnámi og því ekkert nema eðlilegt að þær eigi drjúgan hlut í hindurvitnum landans.

Ég á skemmtilega bók sem heitir Fyrirboðar, tákn og draumaráðningar, og þar er búið að safna saman ýmiskonar hjátrú um allskonar hluti. Sauðkindin á þar tvær blaðsíður og má það nú ekki minna vera, hér kemur hluti af hjátrúnni og ég mæli með þessari bók fyrir þá sem hafa gaman af slíku:

 • Víða í heimi er talið lánsmerki að ganga eða aka fram á fjárhóp
 • Ef barnshafandi kona borðar kindartungu jarmar barnið sem hún eignast og ef hún borðar eyrnamark verður barnið sauðaþjófur
 • Ef ólétt kona borðar ullinseyru af hjarta úr kind verður barnið kjöftugt
 • Ef kindur stangast mikið er von á stormi en ef þær pissa mikið er von á rigningu
 • Ef kindur hrista sig mikið í þurru veðri er það fyrirboði um rigningu
 • Ef forystukind liggur fram við fjárhúsdyr er von á góðu en ef hún liggur innst í kró er von á slæmu veðri
 • Fari forystukind á eftir fjárhóp er ekki von á góðu
 • Kindur sem hafa sveip ofan á snoppunni, svokallaðan féskúf, eru kjörgripir
 • Þeir sem borða eyrnamark af sviðum verða sauðaþjófar
 • Samkvæmt gamalli trú boðar það snjókomu að dreyma kindur og því fleiri sem kindurnar eru því meiri verður snjórinn
 • Sé fyrsta lamb kindar hrútur er það lánsmerki
 • Ef jörð er hvít á fengitíma verða lömbin hvít en ef jörðin er auð verða þau dökk. Mislit lömb fæðast síðan ef það er snjór en sér á auða jörð
 • Ef ærin horfir á hund á meðan hrútur gagnast henni fær lambið lit hundsins

Að auki sagði internetið mér að ekki megi marka á sunnudegi, hvorki megi hleypa til á jóladag né á nýársnótt og í ofanálag er það víst alkunna, samkvæmt þjóðtrúnni, að ef kind ber gimbur og hrút megi bara setja hrútinn á ef hann fæðist á eftir gimbrinni.

Það er svo sannarlega margt að varast í sauðfjárbúskapnum!

 

 


3 athugasemdir við “Gleðilegt sumar!

 1. Ef kind mígur gulu, spáir hún sólskini en mígi hún glæru spáir hún rigningu.
  Férönd er á snoppu, féskúfur í enni, eðli málsinns samkvæmt.
  Les alltaf pistlana þína mér til ánægju. Takk fyrir mig 🙂

  Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s