Bólusetning – til hvers?

18110884_10155237634611112_381910821_n
Karri lambakóngur

Áður en sauðburður hefst er ýmislegt sem þarf að huga að, og þar á meðal eru bólusetningar.

Á Íslandi er mjög lítið um sjúkdóma í dýrum, sé miðað við flest önnur lönd. Stafar það af því að búfé hér á landi hefur verið mjög einangrað frá búfé sem staðsett er annars staðar í heiminum. Annars vegar er það vegna landfræðilegrar fjarlægðar frá meginlandinu og hins vegar af því að hér hefur í gegnum aldirnar verið rekin afar ströng innflutningsstefna.

Við sauðfjárbændur höfum þó yfir að ráða nokkrum sjúkdómum sem þarfnast bólusetningar við. Er megnið af þeim tilkomnir af bakteríum sem eru til staðar í umhverfinu og eru almennt ekki til vandræða, en geta náð útbreiðslu sé þeim ekki gefinn gaumur í tíma.

Við mörgum þessara sjúkdóma er sem betur fer til bóluefni og þess vegna er afar mikilvægt að bólusetja kindurnar við viðkomandi sjúkdómum á réttum tíma árs.

Á vorin er bólusett með margvirku bóluefni sem ver kindur og lömb meðal annars fyrir sjúkdómunum lambablóðsótt, bráðapest og flosnýrnaveiki. Allir þessir sjúkdómar koma til af bakteríum sem finnast í jarðvegi og heita þessar bakteríur því skemmtilega og einfalda nafni Clostridium.

Þegar sprautað er með bóluefni er það gefið undir húð eins og sagt er, öfugt við t.d. penicillin sem er almennt sprautað í vöðva. Þegar sprautað er undir húð er skinninu lyft aðeins upp og nálinni stungið undir. Notaðar eru mjög fínar nálar þannig að kindurnar finna lítið sem ekkert fyrir þessu. Yfirleitt er einn skammtur af bóluefni einn millilíter, semsagt ekkert sérstaklega stór.

Þegar ærnar eru bólusettar fara þær að framleiða mótefni sem þær skila svo frá sér til lambanna, í gegnum naflastrenginn. Nauðsynlegt er að bólusetja við þessum sjúkdómum á réttum tíma þar sem að ef það er gert of snemma fá fóstrin ekki vörn í gegnum naflastrenginn, og ef það er gert of seint fá lömbin ekki heldur vörn þar sem það er of stuttur tími þangað til þau fæðast. Þess vegna fer þessi bólusetning fram ekki fyrr en 6 vikum fyrir burð og ekki seinna en hálfum mánuði fyrir burð.

Stundum koma fyrirmálslömb, en svo eru lömb kölluð sem fæðast fyrir hefðbundinn Karrisauðburðartíma. Við fengum eitt fyrirmálslamb fyrir réttum mánuði síðan, þegar lambakóngurinn okkar hann Karri fæddist. Þar sem hann fæddist áður en búið var að bólusetja mömmu hans þurfti hann að fá sprautu af svokölluðu sermi, sem er vökvi með mótefni við sjúkdómunum, af því að hann var ekki búinn að fá neina vörn í gegnum naflastrenginn.

Það er staðreynd að bólusetningar skipta máli, sama hvaða dýrategund um ræðir. Mikill árangur hefur náðst í heiminum öllum með bólusetningum, bæði í mannkyninu og öðrum dýrategundum. Ég hvet ykkur þess vegna til að líta bólusetningar jákvæðum augum því afleiðingar sjúkdómanna eru alltaf verri en mögulegar afleiðingar bólusetningarefna sem eru notuð í dag.

18052949_10155237635236112_49795076_n
Hallfríður systir tók þessa skemmtilegu mynd af fjölmiðlafulltrúa búsins, stundum er aðalvandamálið við myndatökur að fyrirsæturnar eru of nálægt ljósmyndaranum 🙂 

 

 


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s