
Fyrri hluti sauðburðar er nú formlega hafinn, en kindurnar sem voru sæddar 7-9. desember á síðasta ári byrjuðu að bera á miðvikudaginn fyrir viku.
Á sauðburði er nauðsynlegt að skipuleggja hvert skúmaskot í fjárhúsunum af ítrustu nákvæmni, þar sem þá stendur jú yfir fjölföldun á fé og slík eiginfjáraukning tekur sitt aukapláss.
Það fer reyndar mikið eftir veðri hversu rúmt er í húsunum þar sem að ef veðrið er gott er hægt að setja ærnar út með lömbin sín tiltölulega stuttu eftir að þær bera, en ef veðrið er leiðinlegt er reynt að gera lömbin aðeins eldri áður en þau fara út. Gott veður fyrir sauðkindur er í flestum tilfellum það sama og fyrir mannkindur, þ.e. best ef það er nokkur hiti og þurrt. Versta veðrið er síðan ef það kemur kalsarigning (rigning þegar hitastigið er nálægt frostmarki), slydda eða snjókoma. Allra verst er síðan ef það fylgir hvassviðri með þessum mismunandi tegundum af úrkomu. Þá blotnar ullin á lömbunum inn að skinni, kuldinn á þannig greiða leið að þeim og í verstu veðrum getur komið fyrir að þau krókna. Það er hins vegar sem betur fer afar sjaldgæft og man ég til dæmis ekki eftir að það hafi gerst hér.
Þegar margir þurfa að komast fyrir ákveðnu svæði er afar mikilvægt að vera með gott skipulag á hlutum, til að mynda því hvar ær sem bera eru settar í stíur og hvert þær fara eftir að þær eru bornar.
Fjárhúsin okkar eru með görðum, eins og ég hef minnst á áður. Síðan er innrekstrargangur við endann á görðunum öðru megin og fóðurgangur hinumegin. Sauðburðarskipulagið hjá okkur er þannig að kindunum er raðað upp í stíur út frá görðunum og þær sem báru fyrst eru næst fóðurganginum. Þannig verða elstu lömbin næst fóðurgangi en yngstu lömbin fjærst honum. Við eigum að auki hlöðu með þremur gryfjum og eina rétt, sem er einskonar útigerði sem stendur sunnan við fjárhúsin. Þangað fara kindurnar þegar lömbin eldast.
Það er semsagt þannig að þegar kindurnar bera eru þær settar í einstaklingsstíu. Þegar lömbin eru orðin 1-2 daga gömul eru þau, ásamt mæðrum sínum, sett í tveggja kinda sambýli. Þetta er gert til að æfa lömbin í því að fylgjast með hvar mæður þeirra eru eftir því sem umhverfisáreiti eykst, og sömuleiðis til að æfa mæðurnar í að vita hvar lömbin eru. Þegar allir eru orðnir góðir í tvíbýlinu fara kindurnar í fjölbýli, í hlöðunni eða réttinni. Plássið þar er meira en í tvíbýlinu og eru þar yfirleitt um 12-18 kindur saman.
Alltaf er jafn skemmtilegt er að fylgjast með lömbunum þegar þau komast í stærra pláss. Yfirleitt fylgir svokallað víðáttubrjálæði, þau hoppa og skoppa út um allt, hlaupa eins og ungviðinu einu er lagið og hafa almennt gaman af þessari breytingu á búsetuháttum. Það er afar gott fyrir þau að ná þessum látum úr sér í vernduðu umhverfi en þetta verður yfirleitt til þess að þau eru rólegri þegar þau fara út, sem er næsta skref á eftir gryfjudvölinni. Þau hoppa og skoppa nú reyndar líka þegar þau koma út en eru samt duglegri að finna mömmu sína aftur en ef þau hefðu ekki verið búin að æfa sig í fjölbýlinu. Æfingin skapar nefnilega meistarann í þessu sem öðru 🙂