
Það er fleira sem þarf að huga að á vorin en að fóðra blessaða sauðkindina. Það þarf nefnilega líka að gefa túngrösunum sitt fóður svo þau nái að vaxa og dafna. Af hverju ætli bóndinn sé svo að láta sig varða hvort túngrösin verði stór eða lítil? Jú, það er af því að frá þeim kemur heyið sem kindunum er gefið á veturna og því er það afar mikilvægt fyrir hvern bónda að túngrösin séu bæði stór og næringarrík þegar þau eru slegin.
Til þess að grös sauðfjárbóndans vaxi er þeim yfirleitt gefinn annars vegar búfjáráburður, semsagt afurðin sem kemur aftan úr kindum, og hins vegar tilbúinn áburður.
Helstu næringarefni túngrasanna eru þrjú og þau eru köfnunarefni, fosfór og kalí. Þegar verið er að bera á er nauðsynlegt að gera svokallaða áburðaráætlun, en þar er ákveðið hversu mikill áburður fer á hvert tún. Til að geta ákvarðað hvaða áburður fer á hvert tún er skoðað hvernig heysýni komu út, hvað túnið er gamalt, hvernig grastegundir eru í því, hvernig jarðvegurinn er og hvort túnið fékk búfjáráburð eða ekki. Það er nefnilega mjög mikilvægt að bera ekki of mikið á til að næringarefnin skolist ekki út með vatni áður en plöntunar ná að nýta þau, og sömuleiðis er mjög mikilvægt að bera ekki of lítið á svo að grösin nái örugglega að nýta sína afkastagetu. Þar að auki þarf að taka með í reikninginn þau næringarefni sem koma úr búfjáburðinum sem er dreift á tún, en þau geta verið töluverð ef geymslan á honum hefur tekist vel. Þegar allt þetta er orðið útreiknað og fínt er síðan hægt að velja áburðartegund sem hentar. Aðalmarkmiðið með þessu öllu saman er semsagt að bera hvorki á meira né minna en það sem er tekið frá túninu í formi uppskeru.
Síðastliðinn laugardag byrjuðum við að bera tilbúna áburðinn á. Það er almennt gert á vorin og til þess arna er notuð dráttarvél sem áburðardreifari er hengdur aftan í, en sá sér um að kasta áburðinum yfir túnið. Það fer síðan eftir því hvernig veturinn og vorið eru veðurfarslega hversu snemma er hægt að bera þennan áburð á.
Þegar verið er að bera á er mikilvægt að velja rétta veðrið og tímann. Grösin þurfa að vera orðin nógu græn til að þau séu tilbúin að taka á móti næringarefnunum, og þau mega ekki vera orðin of stór til að þau troðist niður undan dráttarvélinni. Sömuleiðis þarf klaki að vera nokkurn veginn farinn úr jörðu.
Það er síðan ýmiskonar tækni sem hefur verið nýtt við að dreifa áburði í gegnum tíðina. Fyrsti áburðardreifarinn sem ég man eftir var hálfgerð lengja sem áburður var settur ofan í, hann var síðan með nokkur göt á botninum sem var opnað fyrir þegar dráttarvélin ók af stað og var áburðinum þannig dreift í röndum eftir því sem dráttarvélin ók. Næst á eftir kom kastdreifarinn en hann var töluvert þróaðri. Hann var nefnilega með spaða sem köstuðu áburðinum út frá sér. Dreifarinn sem við eigum í dag er nokkuð svipaður, nema að hann kastar heldur lengra og nákvæmar. Nákvæmnin skiptir nefnilega miklu í þessari dreifingu þar sem við viljum að grösin fái sem jafnastan skammt af áburði.
Í fyrra festi verktakinn okkar síðan kaup á áburðardreifara sem er tengdur við gps-tæki, en það er bæði nýjasta og nákvæmasta týpan af dreifurum. Þessi tegund dreifir eftir gps-hnitum, reiknar sjálfkrafa út hvað á að ausa miklum áburði á túnið eftir aksturshraða og staðsetningu hverju sinni, og er hin tæknilegasta græja á allan hátt. Við réðum hann samstundis í að bera á sparitúnið okkar og virkaði það svona líka ljómandi vel.
Bændur eru nefnilega alveg glettilega tæknivæddir núorðið 🙂
