Sauðburður í allri sinni dýrð

Lambhrútar
Þessir tóku vordans

Nú er sauðburður hafinn af fullum krafti. Undanfarna daga hafa borið um 20-30 kindur á sólarhring og almennt hefur burður gengið vel. Helsta vandamálið hingað til hefur verið að flekkóttu lömbin eru yfirleitt hrútkyns á meðan við vildum hafa þau gimbrar. Það er hins vegar ekkert sérlega stórt vandamál í heildarsamhenginu 🙂

Það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar fjör færist í leikinn. Í fyrsta lagi þarf að ganga á alla garða oft á sólarhring til að gá hvort einhver ný sé byrjuð að bera. Getur það verið töluvert mikil hreyfing á hverjum sólarhring, en samkvæmt skrefamælinum mínum geng ég um 8-10 kílómetra bara á nóttunni. Þegar kindurnar annaðhvort bera eða eru bornar þarf svo að setja þær í stíur. Þegar þær eru komnar í stíur með lömbin sín þarf síðan að huga að því hvort lömbin komist ekki örugglega á spena. Þar að auki þarf að fylgjast með því að lömbin sjúgi örugglega báða spenana en ekki bara annan, en ef báðir spenar eru ekki sognir getur kindin fengið júgurbólgu. Þessu til viðbótar eru öll lömb skráð í svokallaða vorbók. Þar er skrifað niður við hverja kind hvað hún átti mörg lömb, hvenær hún átti þau, hvers kyns þau eru, hvernig á litinn þau eru og hvaða lambanúmer þau fá. Þannig vitum við alltaf hvaða lömb eru undan hvaða kind. Þar að auki er skráð niður ef einhver lömb eru vanin undir aðra kind og sömuleiðis ef einhver lömb drepast á sauðburði, en því miður er það sjaldnast þannig að öll lömb fæðist lifandi.Lambaskjól

Það heitir semsagt að venja undir ef lamb er tekið frá einni kind og sett undir aðra kind, þá er nýja kindin í raun að ættleiða lambið. Þetta er helst gert ef mæðurnar eru fleirlembdar (þrjú lömb eða fleiri), gemlingarnir eru tvílembdir, móðirin er með júgurskemmd og getur þar með einungis mjólkað einu lambi eða ef kindin mjólkar einfaldlega ekki nógu mikið frá náttúrunnar hendi.

Fósturtalningin sem framkvæmd var í mars kemur síðan að góðum notum við þessar ættleiðingar allar þar sem að núna vitum við hvaða kindur ganga með eitt lamb, og þar með hvaða kindur er óhætt að venja annað lamb undir.

Það sem gefur besta raun við að láta einlemburnar sætta sig við nýja lambið er að setja það hjá þeim rétt áður en þeirra eigin lamb kemur út, en þá eru þær yfirleitt alveg ákaflega æstar í að eignast lamb, sama hvaða lamb það er. Til að ýta enn frekar undir að nýja móðirin vilji lambið er það baðað upp úr volgu vatni og fleiru þannig að kindurnar vilji frekar kara það (kara = sleikja).

Á sauðburði er nauðsynlegt að vera á vakt í fjárhúsunum allan sólarhringinn, kindurnar skeyta nefnilega ekkert um eðlilegan háttatíma og bera ekki síður á nóttunni en á daginn. Allra hraðast bera þær þegar von er á vondu veðri en það er nú önnur saga.

Undirrituð sér um næturvaktina í húsunum og er það ákaflega góður tími. Vissulega geta kindurnar stundum verið með vesen en það er sem betur fer undantekning. Fyrri hluta nætur reyni ég að hafa ró í húsunum eins og hægt er, set kindur sem bera í stíur og fer venjubundnar eftirlitsferðir en ekki mikið meira en það. Mér finnst nefnilega pínulítið nauðsynlegt að ekki sé verið með óþarfa rask yfir hánóttina þegar allir eiga að vera sofandi. Þegar morgnar fer ég í fleiri störf, svo sem að skrá þær kindur sem báru sólarhringinn áður, marka og merkja.

Dagar og nætur eru síðan miserfið eftir veðri. Í nótt var til dæmis leiðindaveður með Sjöanorðan kalsarigningu og hvassviðri og var ég þar af leiðandi búin að opna inn í öll skúmaskot til að þær kindur sem voru komnar út hefðu sem mest skjól. Þær hafa reyndar ágætis skjól á bakvið hóla og hús en finnst ágætt að kíkja inn líka og ná sér jafnvel í aukatuggu.

Nætur með svona veðri eru ekkert endilega neitt sérlega skemmtilegar en svo eru það hinar næturnar, næturnar með blíðviðrinu, sem minna bændur á af hverju þeir standa í þessu.  Það er nefnilega nánast ólýsanlegt að hafa verið í húsunum í heila nótt, taka á móti lömbum og fylgjast með þeim taka fyrstu skrefin. Fara svo út fyrir dyr þar sem sólin gægist yfir fjallstoppinn og náttúran vaknar af værum blundi. Ærnar sem eru komnar út dorma í sólinni með lömbin sér við hlið, hrútarnir eru búnir að finna sér tré til að berjast við. Sólin stirnir á ána, þrestirnir skamma mig fyrir að vera of nálægt hreiðrinu þeirra og ég brenn í framan því veðrið er bara of yndislegt til að fara inn í skugga aftur.

Ef þetta er ekki lífið þá veit ég ekki hvað 🙂

Golsi.JPG
Golsi 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s