Burðarhjálp

Gemlingur
Gemlingur sæll með sitt fína lamb

Nú er farið að síga á seinni hluta sauðburðar og óbornar ær komnar niður fyrir síðasta hundraðið. Það er búið að vera frekar rólegt á næturvöktunum hjá mér miðað við oft áður, aldrei borið fleiri en 12 á nóttu. Það hefur stundum gengið flökkusaga af bónda sem sagðist alltaf taka hrútana úr á nóttunni yfir fengitímann til að kindurnar bæru bara á daginn, spurning hvort hitt heimilisfólkið hafi gert þetta um fengitímann núna? Eitthvað er systir mín að hóta því að hafa hrútana bara í yfir nóttina um næsta fengitíma en það er annað mál…

Burður hingað til hefur gengið ljómandi vel, lömbin verið frísk og sælleg þegar þau spýtast út úr kindunum og ekki mikið sem er búið að þurfa að hjálpa kindunum við að bera.

Þegar ég segi að það þurfi að hjálpa kindunum við að bera þá er ég að ræða svokallaða burðarhjálp eða aðstoð. Það er nefnilega þannig með kindurnar eins og önnur dýr að lömbin snúa ekki alltaf rétt í fæðingarveginum og þarf þá stundum að hjálpa kindunum við að koma þeim út, eða draga þau út eins og yfirleitt er sagt. Sennilega gæti ég skrifað heila bók um burðaraðstoð en hér verður hins vegar reynt að stikla á helstu atriðum sem þarf að huga að.

Þegar lömbin snúa rétt þá koma framfæturnir á undan og hausinn á milli þeirra. Yfirleitt þegar lömbin snúa rétt þá þarf ekki að aðstoða kindina við að bera, nema lömbin séu mjög stór eða ef lambið er risastór hrútur en þá getur þurft að aðstoða kindina við að koma hornunum fram úr grindinni.

Hornastór
Þessi hornastóri hrússi þurfti smá hjálp við að komast í heiminn 

Þegar lömbin snúa vitlaust getur það verið á ýmsan máta. Það getur vantað annan eða báða framfætur, en þá liggja þeir aftur með lambinu í staðinn fyrir að koma á undan hausnum eins og þeir eiga að gera. Hausinn getur sömuleiðis verið aftur með lambinu í staðinn fyrir að snoppan snúi fram. Lambið getur komið aftur á bak og þá eru það ýmist hæklar eða klaufir sem koma fyrst út. Ef kindur ganga með fleiri en eitt lamb geta lömbin síðan verið í ýmiskonar flækjum og jafnvel getur gerst að bæði reyni að komast út í einu, sem er ekkert sérlega heppilegt þar sem fæðingarvegurinn er ekki hannaður með fleiri en eina akrein í huga.

Þegar lömbin snúa rétt en eru samt strand er yfirleitt nóg að kippa aðeins í þau. Ef hins vegar vantar löpp eða ef þau eru í einhverri flækju þá þarf að fara inn í kindina og sækja það sem á vantar eða greiða úr flækjunni eftir því hvernig hún liggur.

Þegar verið er að draga lömb frá kindum er ýmislegt sem þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi þarf þrifnaður að vera í algjöru hámarki. Þegar þarf að fara inn í kindur er nauðsynlegt að þvo sér bæði á undan og eftir. Þess vegna er mikilvægt að hafa sápu í fjárhúsunum, vask og vatn. Það er svo óneitanlega kostur að vera með heitt vatn að auki þar sem hendurnar verða ansi kaldar og aumar ef alltaf þarf að þvo sér upp úr köldu vatni.

Þegar verið er að sækja fætur inn í kindina er síðan númer eitt, tvö og þrjú að fara varlega. Alltaf skal þreifa sig inn eftir lambinu en ekki leginu, þar sem að puttarnir geta rifið legið ef þeir rekast harkalega utan í það. Síðan er nauðsynlegt að auki að klippa neglurnar vel niður. Þegar verið er að rétta úr fótum þarf síðan að passa að klaufin á lambinu rífi ekki neitt og þess vegna er gott að taka utan um klaufina á meðan verið er að rétta úr fætinu. Þetta á sérstaklega við ef lambið er afturábak og það þarf að rétta úr fótunum.

Það er síðan hverjum sauðfjárbónda nauðsynlegt að vera með vana sauðburðarhjálp á staðnum sama hvort það er hann sjálfur eða einhver annar. Þar að auki er mikilvægt að þeir sem eru reyndir í burðaraðstoð kenni þeim sem eru minna vanir, en því fleiri sem geta bjargað sér með að draga lömb frá kindum því betra og minni hætta á að eitthvað fari úrskeiðis.

Að lokum er síðan mikilvægt að sauðburðarhjálpin þekki sín takmörk, og kalli til ýmist vanari manneskju eða jafnvel dýralækni, ef burðurinn er sérlega erfiður.

Við erum afar heppin með aðgengi að dýralækni og erum ekki nema 15 mínútur að keyra til hennar. Þegar við förum með kindur til læknis notum við til verksins gullkistuna okkar góðu, en það er kassi sem var sérsmíðaður til að passa í jeppana á heimilinu. Það er nefnilega ósköp þægilegt að geta bara hent kistunni inn í skottið og þurfa ekki alltaf að hengja kerru við þegar þarf að keyra eina kind á milli staða.

Hér að neðan er mynd af henni Vinkonu en hún skrapp til læknis á mánudaginn af því að leghálsinn á henni víkkaði ekki. Ferðin til dýralæknisins var velheppnuð, komu móðir og dóttir báðar hressar heim og eru hæstánægðar með lífið í dag 🙂

Gullkistan
Vinkona og golsótta dóttir hennar í gullkistunni góðu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s