Fótsnyrting

Klaufir
Sætar þessar lambaklaufir 🙂

Nú er heldur betur farið að verða tómlegt í fjárhúsunum og þær kindur sem enn eru inni eru þær sem síðast báru, þær sem eiga eftir að bera og þær sem eiga ekki að bera en þær síðasttöldu fara reyndar ekkert út á tún heldur beint á heiðina.

Undanfarið höfum við semsagt verið að hleypa kindunum út úr húsunum í allar áttir, enda kominn tími til þar sem þær vita ósköp vel blessaðar að sumarið er komið og eru farnar að bíða eftir að komast út.

Áður en ærnar fara út er hins vegar ýmislegt sem þarf að gerast. Það þarf að gefa kindunum ormalyf, það þarf að kanna hvort heilsufar bæði kinda og lamba sé eins og best verður á kosið og síðast en ekki síst þurfa allar kindurnar að fara í fótsnyrtingu.

Nei þetta var enginn mislestur hjá ykkur, kindurnar fara nefnilega í fótsnyrtingu á vorin. Klaufir á kindum eiga það sameiginlegt með bæði hófum á hrossum og nöglum á fólki að þær vaxa allt árið sem er yfirleitt ekki vandamál. Stundum slíta kindurnar klaufunum hins vegar ekki nógu mikið eða ekki alveg rétt. Það gæti orðið til þess að klaufirnar yrðu ýmist of langar eða aflagaðar með tímanum, sem gæti valdið kindunum óþægindum, ef ekkert væri að gert. Þess vegna er afar nauðsynlegt að skoða klaufir á öllum kindum áður en þær fara út í vorið, klippa klaufir sem eru orðnar of langar og leiðrétta klaufir sem eru farnar að vaxa vitlaust.

Klaufirnar eru klipptar með klaufaklippum svokölluðum og til þess að best fari um kindina á meðan klipping þessi fer fram eru þær yfirleitt lagðar á bossann, alveg eins og gert er í rúningi. Þessi aðferð fer ákaflega vel með kindurnar en ekki eins vel með klaufsnyrtinn þar sem sá þarf að standa boginn allan tímann á meðan snyrt er og getur það verið afar erfitt fyrir skrokkinn.

Klaufsnyrtibás

Þar sem ég hef talað nokkrum sinnum um vinnuhagræðingu áður þá er um að gera að halda því áfram. Við keyptum nefnilega svokallaðan klaufsnyrtibás í fyrra. Hann er festur á sundurdráttarganginn góða og virkar þannig að kindunum er lyft upp í sitjandi stöðu, en þannig er mun auðveldara fyrir klaufsnyrtinn að sinna sínu starfi. Það er semsagt sæti fyrir kindurnar í básnum, þeim er lyft upp í sitjandi stöðu með handhægu handfangi og síðan er belti utanum bringuna á þeim til að varna því að þær falli úr stólnum. Þessi klaufsnyrtistóll er semsagt afar notendavænn bæði fyrir sauðkindur og mannkindur. Á myndinni hér með sést stóllinn í notkun. Er það hún Mórunn sem vermir hann og virðir jafnframt fyrir sér hvort snyrtingin er ekki örugglega nógu góð!

Þegar þessari snyrtingu allri er lokið fara kindurnar fínar og sætar út í vorið og leika við hvern sinn fingur (eða klauf í þessu tilfelli) 🙂

Sæti flekkur


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s