Fram í heiðanna ró

Vagninn
Hressar kindur á leið í heiðarsæluna 🙂

Þegar inniverunni sleppir að vori fylgir það starfi bóndans að finna kindunum heppilega beitarhaga til sumarvistar.

Beitarmálum að vori er þannig háttað hjá okkur að kindunum er sleppt á landið næst bænum í byrjun vors. Eftir því sem gróðri vindur fram er þeim potað hærra og inn til landsins og fara þá sumar kindurnar í eignarlandið okkar fram á ás, en aðrar fara fram á heiði. Kindunum er skipt á milli staða á þennan hátt til að ekki sé of mikið beitarálag á landinu heima, en það er ekki alveg eins víðfemt og heiðin. Yfirleitt er skiptingin þannig að tvílemburnar eru hafðar fyrir neðan tún eins og við segjum til að byrja með, en þá hafa þær aðgang að bæði túnunum og úthagabeit á vorin, en einlemburnar eru settar beint uppfyrir þar sem engin tún eru en það þarf ekki eins sterkt gras til að mjólka einu lambi og tveimur.

Vér Víðdælingar erum svo heppin að við eigum upprekstrarrétt á fallegustu heiði landsins, en hún heitir Víðidalstunguheiði (og já þetta er algerlega hlutlaust mat 🙂 ). Heiðin okkar býr yfir þeim kostum að vera bæði vel gróin og stór (og blaut líka reyndar) og er þess vegna afar góður sumardvalarstaður fyrir kindurnar.

Þessa vikuna erum við að flytja fé fram á heiði og er það löngu tímabært því ærnar eru svoleiðis farnar að tvístíga af þrá eftir heiðasælunni.

Árferðið skiptir síðan öllu máli varðandi það hvenær hægt er að byrja að flytja fé á heiðina. Áður en hægt er að flytja fé fram á heiði fer fjallskilastjórn svokölluð nefnilega með ráðunauti fram á heiði til að skoða hvernig gróðurframvindan er og hvenær er óhætt að opna heiðina fyrir skepnum. Það væri nefnilega mjög langt frá því að vera sniðugt ef fé væri flutt fram á heiði áður en gróður væri orðinn nógu mikill, það væri bæði vont fyrir heiðina og skepnurnar.

Þetta vorið var heiðin okkar opnuð óvenju snemma og eiginlega bara ótrúlega snemma, eða 6. júní. Það kemur til af því annars vegar að veturinn var einstaklega mildur og góður og hins vegar að vorið var afar hentugt gróðri, hlýtt og rakt. Þannig skilyrði leiða til þess að gróður er fljótur að taka við sér og er því orðið ákaflega búsældarlegt fram á heiði núna, frá bæjardyrum kindanna séð. Ef mikill klaki hefði verið í jörð og vorið leiðinlegt hefði opnun heiðarinnar hins vegar tekið mið af því og sem dæmi má nefna á vorið 2015 (sem var alveg afskaplega leiðinlegt vor veðurfarslega séð) var heiðin ekki opnuð fyrr en 26. júní.

Þar sem afrétturinn er í svolítilli fjarlægð frá jörðinni okkar keyrum við kindurnar okkar frameftir. Þetta er misjafnt eftir landshlutum og jafnvel innan landshluta. Sumir keyra með kindur fram á afrétt á meðan öðrum dugar að opna eitt hlið til að ærnar komist í sumarhagana.

Fjárflutningarnir fara síðan fram með aðstoð dráttarvélar og vagns. Við eigum ágætan vagn sem nýtist bæði til að flytja fé og fóður, hann er semsagt bæði nýttur til fjárflutninga og til að flytja heim rúllur á sumrin. Þegar verið er að flytja fé er fjárkassa einfaldlega smellt ofan á hann, en þegar verið er að flytja rúllur er hann tekinn af aftur.

Á vagninum eru 6 stíur eða hólf og í hverja stíu fara 6 tvílembur, en fleiri ef um einlembur eða geldfé ræðir. Þegar verið er að flytja fé, og þá sérstaklega lambfé, er nefnilega mikilvægt að mátulega margt fé sé saman í stíu til að vel fari um alla á ferðalaginu. Í hverja ferð á vagninum okkar komast þannig 36 tvílembur og eru þetta því nokkrar ferðir á hverju vori, en við flytjum flestar tvílemburnar frameftir þar sem þær eru næst bænum.

Þegar fram á heiði kemur er síðan sleppt úr einu hólfi í einu en það er til þess að lömbin týni ekki mæðrum sínum í kraðaki og vitleysu. Þetta kallast að láta kindurnar lemba sig en það þýðir einfaldlega það að kindurnar þurfa stundum smá tíma til að finna rétt lömb. Á árum áður, þegar var rekið fram á heiði í stórum hópum, gat tekið mjög langa stund að láta kindurnar lemba sig en með nútímafarartækjum týna kindurnar ekki lömbunum sínum í hópnum og þess vegna er allt komið í samt lag um það bil mínútu eftir að þeim er hleypt út.

Hér að neðan gefur á að líta dýrðarinnar sumarkvöld fram á heiði 🙂

Heiðin


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s