Heimagangar

 

Heimagangastjarna
Heimagangurinn Stjarna knúsar pistlahöfund. Mynd: Hallfríður Ósk

Heimaalningar, eða heimagangar eins og þeir eru oftast kallaðir hjá okkur, eru lömb sem eru alin heima við yfir sumartímann, ganga semsagt ekki undir móður sinni. Ástæður fyrir því eru almennt þær sömu og fyrir því að lömb eru vanin undir aðrar kindur, semsagt ef kindin er veik og getur ekki hugsað um lömbin, ef kindin á of mörg lömb miðað við spenafjölda eða ef hún mjólkar of lítið. Að auki geta svo orðið til heimagangar ef kindin er gersneydd hinu svokallaða móðureðli og hreinlega harðneitar að vilja afkvæmið sitt.

Frjósemi kindanna er misjöfn á milli bæja og þar af leiðir að heimagangar eru mismargir á milli bæja. Hjá okkur vantar aðeins upp á frjósemina og náum við því að venja flesta fleirlembinga undir einlembur. Hins vegar eru oft einhver vandamálalömb sem dúkka upp í lok sauðburðar, þá helst þegar allar einlemburnar eru bornar og þar með of seint að venja undir þær.

Þetta árið erum við með tvo heimaganga, þau Þrjósku og Þránd, sem misstu bæði móður sína úr veikindum. Það stefndi í það á tímabili að heimagangarnir yrðu fjórir en á síðustu metrunum var hún Frekja vanin undir gemling sem missti sitt lamb, og móðir Brands er að hressast eftir veikindi þannig að hún er farin að geta sinnt báðum hrútunum sínum aftur.

Heimagangahrúga
Heimagöngunum þykir gott að kúra saman

Þegar lömb gerast heimagangar er þeim gefin svokölluð duftmjólk, en það er mjólkurduft sem er hrært út í volgt vatn í ákveðnum hlutföllum. Það er mikilvægt að kaupa duft sem er sérstaklega ætlað lömbum, en þau þurfa mun feitari mjólk en til dæmis kálfar.

Það eru síðan nýttar ýmsar aðferðir til að gefa lömbunum mjólkina. Yfirleitt er byrjað á að gefa lömbum úr pela, á meðan þau eru að læra að drekka hana, en flest eru þau nokkuð snögg að læra á pelann. Þegar lömbin eru orðin nokkuð ráðsett skiptum við yfir í svokallaða túttufötu, en það er fata með 5 stútum sem mjólkinni er hellt ofan í, og þannig geta 5 lömb drukkið úr sömu fötunni í einu. Það er til þæginda þegar heimagangarnir eru fleiri en tveir og ein manneskja að jafnaði að gefa lömbunum, en það er afar erfitt að halda á fleiri en tveimur pelum í einu. Stundum tekur heldur lengri tíma að kenna lömbunum á fötuna en pelann. Það skýrist af því að tútturnar á fötunni eru öðruvísi en á pelanum og sauðkindin er í eðli sínu frekar íhaldssöm og lítt hrifin af breytingum.

Á sumum bæjum þar sem frjósemi er mikil og þar með fleiri heimagangar, hafa bændur fjárfest í svokallaðri lambafóstru. Það er rafmagnstæki sem heldur mjólkinni heitri allan sólarhringinn og hafa lömbin þannig stöðugt aðgengi að mjólk án þess að bóndinn þurfi að eyða öllum deginum í að blanda handa þeim. Fylgir slíku tæki þar með bæði tíma- og vinnusparnaður.

Heimagangar allra sauðfjárbúa eiga það yfirleitt sameiginlegt að vera bæði spakir og frekir. Eru þeir þar með yfirleitt ákaflega vinsælir af yngri kynslóð mannkindarinnar. Ég átti til dæmis heimagang þegar ég var lítil sem hét Snuðra, hún elti mig eins og hundur og kom þegar ég kallaði sem mér fannst nú aldeilis ekki leiðinlegt. Fullorðna fólkinu finnst þeir aftur ekki endilega eins skemmtilegir enda eiga þeir það til að troða sér þangað sem þeir eiga alls ekki að vera og finnst sumarblómin í görðum bænda hreinasta lúxusfæða 🙂

Heimagangarnir geta síðan orðið fínustu kindur enda oftar en ekki undan eðlisfrjósömum kindum. Kindurnar Jara, Helga, Agnarögn og Þrá hófu til dæmis allar ferilinn sem heimagangar og eru góðar kindur í dag. Ekki spillir svo fyrir að þær eru allar enn í dag frekar spakar og skemmtilegar á húsi 🙂

Heimagangar
Heimagangar smakka allt, meira að segja gaddavír!

Ein athugasemd við “Heimagangar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s