
Þegar blessuð sauðkindin er farin í fríið er næsta mál á dagskrá að búa til fóður handa henni fyrir næsta vetur.
Fóður kinda skiptist í annars vegar gróffóður og hins vegar kjarnfóður. Kjarnfóðrið er yfirleitt búið til úr orkumiklum jurtum s.s. byggi, hveiti og fleiru af sama meiði. Stundum er það heimaaflað og stundum ekki. Gróffóðrið kemur hins vegar af grasi í túnum og er alltaf heimaaflað. Þessi gróffóðurfræði eru síðan ekkert einföld því að þó þetta græna sem lifir í túnum sé yfirleitt kallað einu orði gras þá eru til ýmiskonar tegundir af grasi sem eru misjafnlega orkuríkar og þar að auki er hver grastegund misjafnlega orkurík eftir því hvenær hún er slegin.
Kindur þurfa misjafnlega orkuríkt fóður eftir árstímum og þess vegna er almennt álitið gott að eiga annars vegar tún sem eru með góðum grastegundum, semsagt orkumiklum, en í þeim flokki hefur vallarfoxgras verið vinsælast í gegnum tíðina.
Vallarfoxgrasið hefur þann kost að vera blaðríkt og fljótvaxta, en eftir því sem blöðin á hverri plöntu eru fleiri þeim mun meiri verður uppskeran af túninu. Þessi tún eru yfirleitt slegin frekar snemma því þannig fæst besta grasið. Hins vegar eru oft til tún sem eru með heldur orkusnauðari grastegundum en þær eru með minni blaðvöxt en vallarfoxgrasið góða. Þar geta ýmsar tegundir verið á ferli og ber þar helst að nefna snarrótina sem er blessun og bölvun hvers bónda. Blessun af því að hún lifir alveg ótrúlegustu hluti af og endist þess vegna vel þegar illa viðrar og jafnframt getur hún náð ágætis árangri í að kæfa arfa (sem er jafnvel verr liðinn en snarrótin). Bölvun hins vegar af því að hún er svo frek að hún hefur ítrekað verið staðin að því að kæfa niður þær grastegundir sem bændur vilja helst hafa í túnum sínum.
Heyskapur fer þannig fram að grasið er slegið, því er snúið (sem við köllum að rifja), því er rakað saman og loks tekið saman ýmist í bagga, rúllur eða stæður. Þegar þetta lokastig kemst á umbreytist grasið yfir í hey.
Þegar verið er að velja sláttutíma er horft annars vegar hversu vel grasið er komið á veg og hins vegar á veðrið. Best er að slá grasið rétt fyrir eða um skrið svokallað. Axið er sá hluti plöntunnar sem inniheldur fræin, semsagt frjókornin. Þegar axið fer að sjást upp úr blöðunum er grasið kallað skriðið. Grasið er næringarríkast rétt fyrir skrið sem skýrist af því að þá er hver planta einungis að hugsa um að láta blöðin vaxa, en eftir því sem lengra líður frá skriði fer meiri orka í axið og minni í blöðin, en næringargildið í axinu og stönglinum sem heldur því uppi er miklum mun minna en næringargildið í blöðunum.
Veðrið skiptir síðan öllu máli fyrir hvern bónda. Það er nefnilega nauðsynlegt að heyja í þurrki þar sem að ef grasið væri bundið með allri þeirri umframbleytu sem kemur af rigningu myndi það eyðileggjast. Þess vegna er það greypt í alla til sveita að fylgjast vel með veðurspám til að vita hvenær hann rignir eða ekki, og ég er ekki frá því að þetta sé hluti af skýringunni á því að Íslendingum finnst fátt skemmtilegra en að ræða um veðrið.
Núna erum við búin að heyja spariheyið okkar, en því nafni köllum við orkuríkasta heyið okkar sem er notað annars vegar á fengitíma og hins vegar á sauðburði. Þar sem bæði veturinn og vorið voru einstaklega góð veðurfarslega séð fengum við afar góða uppskeru, eða 119 rúllur. Til samanburðar má nefna að sumarið 2015, þegar bæði vor og sumar voru einstaklega leiðinleg veðurfarslega séð, fengum við 75 rúllur af sama túni og þó var það slegið viku seinna. Titill þessarar færslu er fenginn úr ljóðinu Eftirköst eftir Stephan G. Stephansson. Eins og sjá má á þessum mismun í rúllufjölda var þetta alveg hárrétt ort hjá honum enda vill enginn bóndi verða heylaus á miðjum vetri.
