Tækniöldin

Raka

Í síðustu viku fjallaði ég um heyskap, en hann á sér margar hliðar. Það er nefnilega ekki nóg að fylgjast með veðurspánni og grasvextinum til að geta heyjað heldur þarf dágóðan slurk af tækjum til starfans.

Heyskapur hefur alltaf verið stundaður að einhverju leyti á Íslandi, eðlilega þar sem það hefur í gegnum tíðina verið mjög miserfitt að beita búfénaði úti á veturna sökum snjóalaga og þurfti því aukaforða af heyi þegar beitin var lítil. Nú er vetrarbeit að mestu aflögð, það er helst að hross séu úti við á beit en þó er nánast alltaf gefið hey með beitinni.

Þó að heyskapur sé ekki nýr af nálinni hér á landi þá hefur tækninni sem er nýtt við hann fleytt fram, sem betur fer. Í árdaga íslenskrar byggðar var notast við hrífur, orf og ljá til að heyja. Eins og gefur að skilja þurfti marga til starfans enda ekki stórt svæði sem hver hrífa og ljár tekur í einu, og oft á tíðum stuttur tími sem gafst til heyskapar sökum veðurfars. Sem betur fer (í þessu tilfelli allavega) er mannkynið frekar uppfinningasamt (reyndar uppátækjasamt líka) og fljótlega var búið að hanna heyskapartæki sem hestar gátu dregið. Þessi heyskapartæki gátu heyjað mun stærra svæði í einu, enda eru hestar sterkari en mannkindin og geta þar af leiðandi skottast um með stærri tæki.

Á eftir hestunum komu síðan fyrstu dráttarvélarnar. Þær þættu sennilega ekki stórar í dag, en voru gríðarleg bylting þegar þær komu á svæðið. Einni dráttarvél man ég eftir að hafa heyrt sögur af hér, það var Farmall Kubb sem var 12 hestöfl. Í dag eru vélar hins vegar nær því að vera 120 hestöfl (sumar reyndar minni og aðrar stærri). Þessi tækni hefur semsagt flogið áfram og eftir því sem vélarnar þróast því þægilegri verður vinnan fyrir bóndann.

Það fylgir svo að því stærri sem vélarnar verða, því meiru afkasta þær. Þess vegna er það oft á tíðum farið að borga sig fyrir íslenska bændur að ýmist eiga vélar í sameign eða að ráða verktaka til að sinna vissum störfum.

Verkaskiptingin hjá okkur er þannig að við sláum grasið og rifjum það (snúum því) sjálf en fáum svo verktaka til að raka því saman og binda saman í rúllur. Stórar vélar eru nefnilega líka dýrar og til að þær borgi sig þarf að vera töluverð notkun á þeim. Við heyjum á milli 500 og 600 rúllur á ári en til að rúlluvélar nútímans standi undir sér giska ég á að þurfi að heyja ekki minna en 2.000 rúllur á ári, misjafnt þó eftir vélum.

Svona virkar hagkerfið í sveitinni, við gerum sumt og kaupum þjónustu á öðru. Það er nefnilega hagkvæmt bæði fyrir okkur og umhverfið að nýta þjónustu verktaka í heyskapinn 🙂

Binding
Rakstur og binding á nútímavegu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s