Hestburður

Rauður
Rauður heitinn með aktygi… já og akhestaklippingu líka…

Ekki er nú heyskap alveg lokið þegar búið er að binda heyið, því þá er nefnilega eftir að flytja það heim að fjárhúsum svo það sé tilbúið til gjafa næsta vetur.

Í gamla daga var heyið bundið saman og flutt heim í böggum sem hengdir voru einn á hvora hlið á hesti. Hvor baggi var um 50 kíló og er þess vegna talað um að einn hestburður sé 100 kíló. Reiðingur úr torfi og klyfberi úr tré voru síðan nýttir til að festa baggana upp á hestinn. Næst á dagskrá voru vagnarnir, en þegar hestar voru spenntir fyrir vagna gátu þeir tekið mun meira heim í einu en það sem var bundið upp á bak þeim. Smám saman tóku dráttarvélarnar síðan við störfum af hestunum í þessu eins og ýmsu öðru í landbúnaðargeiranum.

Þegar ég var lítil var heyið okkar bundið í svokallaða litla þurrheysbagga. Í þeim var miklu minna hey en í rúllunum sem við heyjum í dag, en hver baggi var um 20-40 kíló á móti svona 400 kílóa þungum rúllum í dag.

Baggar2Baggar1

Þessir baggar eru ferkantaðir og var hlaðið á vagn eftir kúnstarinnar reglu. Skipti þá miklu máli að raða vel þar sem baggarnir voru á nokkrum hæðum og ef illa var raðað gat hlassið hrunið af á leiðinni heim. Það var síðan aðal sportið fyrir kaupafólkið og krakkana að byggja hús úr böggunum og fá svo að sitja á toppi hlassins á leiðinni heim. Þessi baggaheyskapur er sveipaður dulitlum dýrðarljóma í minningunni hjá mér, enda var ég ekki það stór að ég hefði mikið að segja af honum. Þetta var hins vegar óttalegt puð fyrir fullorðna fólkið og ekkert grín að henda allt að 10.000 böggum eins og var eitt sumarið hjá okkur upp á vagn, niður aftur og svo inn í hlöðu eða stæðu.

Núna erum við farin að binda heyið í rúllur, eins og áður sagði, og eru vagn og dráttarvél nýtt til að koma rúllunum heim, alveg eins og var gert með baggana gömlu. Munurinn er hins vegar sá að dráttarvélin hefur tekið við af handaflinu við að koma heyinu upp á vagninn enda væri það nú ekki fyrir hvern sem er að lyfta 400 kílóa rúllu, heilum fjórum hestburðum, upp á vagn! Til starfans eru notuð svokölluð ámoksturstæki sem eru fest framan á dráttarvélina og er hægt að færa upp og niður eftir hentugleikum, og baggagreip sem er fest framan á ámoksturstækin en armarnir á henni geta bæði farið upp og niður og inn og út. Baggagreipin grípur semsagt utan um rúlluna, armarnir á henni eru svo færðir að rúllunni og þannig er hægt að lyfta. Það þarf að fara ákaflega varlega við þetta starf til að ekki komi gat á plastið, en ef plastið gatast er hætt við að heyið í rúllunni skemmist.

Rúlluvagn

Þegar heim er komið þarf svo að raða rúllunum í stæður sem eru yfirleitt á nokkrum hæðum. Þegar verið er með hey af misjöfnum gæðum er nauðsynlegt að raða rúllunum upp í samræmi við það. Semsagt hafa sömu gæðategund á sama stað í stæðunni og jafnframt að raða misjöfnum gæðategundum upp eftir því í hvaða röð þær verða gefnar yfir veturinn. Þá er jafnframt mikilvægt að merkja rúllurnar eftir því hvernig þær eru, svo að það séu nú örugglega gefnar réttar rúllur á réttum tíma. Það er með þetta eins og annað í sveitinni, skipulagning skiptir máli!

Ytratúnsrúllur
Spariheyið komið í stæðu og merkt eftir kúnstarinnar reglu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s