Sumarbaðið

Sumarbað
Fóðurgangurinn nýsópaður og fínn

Ekki eru nú öll störf til sveita jafn skemmtileg og eitt er það verk sem ég held að flestir bændur séu sammála um að sé ekki ofarlega á vinsældalistanum, en það er fjárhúsþrifin. Stundum þarf hins vegar að gera fleira en gott þykir og á sumrin, þegar allt féð er farið út, þarf að þrífa fjárhúsin hátt og lágt til að þau séu tilbúin fyrir inniveru kindanna næsta vetur.

Þó að féð sé farið út fyrir þónokkru síðan þá er semsagt ýmislegt sem þarf að dunda í fjárhúsunum þrátt fyrir það. Það þarf að sópa alla króka og kima, það þarf að koma brynningardöllum á sinn stað fyrir haustið, það þarf að henda sauðburðargrindum út, það þarf að moka moðinu úr hlöðunni út og svo það sem er mesta verkið, að þvo fjárhúsin.

Hér í fyrndinni þá var það fastaverk vinnufólksins á sumrin að þrífa fjárhúsin og voru þau þá þvegin með lítilli vatnssprautu, skóflu og gaffli, en það er alltaf eitthvað sem safnast á rimlana yfir vetrartímann. Nú til dags notum við háþrýstidælu til að skrúbba fjárhúsin hátt og lágt, er það mun auðveldara en fyrri aðferðir og var eiginlega bara pínulítil bylting.

Háþrýstidælan virkar þannig að hún spýtir vatni út um þröngan stút af töluverðu afli, og verða óhreinindin því yfirleitt undan að láta en skóflan góða er nýtt á þær klessur sem þrjóskast við. Við bleytum reyndar yfirleitt upp í rimlunum áður þar sem að því blautari sem blettirnir eru því auðveldara er að ná þeim í burtu. Þetta er ekki sérstaklega flókið verk en töluvert tímafrekt hins vegar og stefni ég eindregið á að finna upp sjálfhreinsandi fjárhús á næstu árum. Veðrið er nefnilega búið að vera afar gott í sumar og þá er frekar erfitt að halda sig inni í fjárhúsum við þrif.

Það eru reyndar fleiri en ég sem eru ekki hrifnir af inniverkunum þessa dagana. Maríuerlurnar okkar tóku sig nefnilega til og verptu inni í fjárhúsum eftir að kindurnar voru farnar út, líta núna á fjárhúsin sem sitt yfirráðasvæði og verða alveg sármóðgaðar ef við látum sjá okkur þar inni!

Það sem kemur svo á móti þessum þrifaleiðindum er að það er ákaflega gaman að horfa yfir fjárhúsin þegar þau eru orðin alveg tandurhrein og fín 🙂

Svona er það í sveitinni, kostir og gallar við alla hluti og nauðsynlegt að sinna leiðinlegri verkunum með þeim skemmtilegri. Þegar búið er að eyða deginum við þetta starf er síðan alveg nauðsynlegt að stalda við úti og horfa á sólsetrin, en þau geta verið ansi stórfengleg eins og myndin hér að neðan ber með sér 🙂

Sólsetur


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s