Þó að það hafi ekki verið mikið um dagbókarfærslur á þessari síðu það sem af er ári þýðir það nú ekki að árið hafi verið tíðindalaust.
Vetrarmánuðirnir hafa gengið ágætlega fyrir sig, þó ber að nefna að veðurfarslega séð var febrúar tiltölulega óþolandi mánuður sem bauð upp á hvert hvassviðrið á fætur öðru. Þeir sem til þekkja vita að ég er ákaflega langt frá því að vera hrifin af roki og aðrir fjölskyldumeðlimir eru á svipaðri skoðun, þannig að þetta veðurfar vakti nákvæmlega enga lukku hér á bæ. Ekki batnaði nú veðurskapið hjá mér á öskudaginn sjálfan þar sem þá var alveg snælduvitlaust veður, og öskudagur er þekktur í þjóðtrúnni fyrir að eiga sér 18 bræður. Skapið lagaðist reyndar töluvert þegar mér var bent á að öskudagurinn væri mögulega yngsti bróðirinn og þar með sá síðasti í röð illviðradaga. Það kom svo á daginn að það var eitthvað til í þessu, seinnihluta febrúar, mars og allt fram á þennan dag hefur nefnilega heilt yfir verið frekar þokkalegt veður. Hver segir svo að það sé ekkert að marka þessa þjóðtrú 🙂
Annars er það helst að frétta af búinu að ærnar verða bústnari með hverjum deginum enda farið að styttast allverulega í sauðburð þegar þetta er skrifað. Fósturtalning fór fram á sínum tíma eins og vinnuhagræðing gerir ráð fyrir. Hún kom alveg þokkalega út, til dæmis er gaman að segja frá því að Kata Jak mín er tvílembd og þar með ættinni til sóma. Gloría mín, sem var einlembd í fyrra, er með tveimur núna sem er afar ánægjulegt. Sömuleiðis er gemlingurinn hún Bumba mín Bolludóttir lambfull sem ég er ákaflega ánægð með. Það er svo spurning ef hún Bumba eignast gimbur hvert nafnið á viðkomandi gimbur ætti að vera svona til að halda stíl við ættbogann en það er hins vegar seinni tíma mál.
Aðalmálið þessi misserin er hins vegar að njóta vorsins. Dagurinn er nefnilega óðfluga að lengjast, hitastigið er fyrir ofan frostmark flesta daga og farfuglarnir eru að byrja að láta sjá sig. Það eru hrein forréttindi að fá að horfa á náttúruna vakna til lífsins eftir kaldan vetur. Grasið er byrjað að kíkja upp úr sverðinum, fuglar ýmiskonar syngja óð til birtunnar og ylsins, sólin fer seinna að sofa með hverjum deginum.
Náttúran öll vaknar til lífsins sem er alveg stórkostlegt að verða vitni að og þó að ég hafi fylgst með þessari framvindu á hverju vori síðan ég man eftir mér þá finnst mér það ekkert annað en kraftaverk í hvert einasta sinn.