Vetrardvalinn

 

Kata Jak
Kata Jak

Miðvetur er almennt rólegasti tíminn á sauðfjárbúum. Fengitíminn er búinn, vorið ekki alveg á næsta leyti og menn og dýr halda sig í skjóli frá veðri og vindum, nærast og hvílast eins og þeirra er von og vísa.

Þó að þetta sé rólegasti tíminn á sauðfjárbúi þýðir það nú samt ekki að það sé ekkert um að vera. Til dæmis þarf að taka niður númer á kindunum fyrir vorið til að hafa það skrásett hvaða kind heimsótti hvaða hrút yfir fengitímann. Það er nefnilega grundvallaratriði í hverskyns ræktunarstarfi að vita hvaða ættir standa að hverju ungviði sem fæðist, enda er öðruvísi ekki hægt að vita hvaða eiginleika viðkomandi ungviði komi til með að erfa frá sér þegar fram líða stundir.

Þar af leiddi að um daginn voru við að lesa á kindurnar, semsagt skrifa niður hvaða kindur voru hjá hvaða hrút. Til þessa verks nýttum við að mestu innrekstrarganginn, rákum kindur úr einni kró fram á gang í einu, skiptum þeim upp í nokkrar stíur á ganginum og lásum svo á númerin á þeim. Þetta verk krefst einnar til tveggja manneskja. Það er semsagt hægt að hafa bara eina manneskju við starfann sem heldur á skrifblokkinni, les á númerin og skrifar niður, en þar sem fleiri en einn voru heima á þeim tíma sem verkið átti sér stað voru viðkomandi starfskraftar að sjálfsögðu fullnýttir.

Við systur fórum þar með um daginn, einu sinni sem oftar, niður í fjárhús. Í þetta skiptið var tilgangurinn að skrifa niður fyrrnefnd númer hjá hverjum hrút. Ein kró í einu var látin út á innrekstargang, systir mín las á númerin og ég sat á garðabandinu og skrifaði. Þennan gjörning litu okkar kögglaspöku kindur hins vegar á þannig að ég hefði sest á garðabandið einungis til að fóðra þær á nammi. Frekar þröngt var á þingi en þó allt með þolanlega kurteisum máta, þar til við komum í tvævetlukrærnar. Þannig er nefnilega mál með vexti að í þeim króm eru að megninu til kindur fæddar 2016, en að auki eru nokkar eldri kindur. Á meðal eldri kindanna ber helst að nefna ættmóðurina Trýnu, sem er 7 vetra, góð og veit af því, en þar á eftir kemur dekurdýrið Vinkona. Til viðbótar við þessar hefðarkindur eiga Kata Jak, Birta, Agnarögn og fleiri heimili í þessum króm.

Kindurnar á flestum görðunum biðu semsagt frekar rólegar eftir nammi, stóðu bara slakar hjá mér og biðu settlega eftir að röðin kæmi að þeim. Þegar kom yfir í tvævetlugarðann breyttist það nú aldeilis. Um leið og það var búið að lesa af Kötu Jak, Birtu og Trýnu og þeim var hleypt inn í kró aftur komu þær til baka og kröfðust verðlauna fyrir það hvað þær hefðu verið duglegar. Það var sosum allt í lagi og þær fengu gott í munninn, en eitthvað virðist þessi gjörningur hafa farið illa í Vinkonu mína. Hún hefur nefnilega hingað til alltaf verið ákaflega ljúf, hógvær og hopað undan hinum frekjunum í krónni, og þar með misst af bæði kögglum og klappi. Þann dag sem lesið var af ákvað hún hins vegar að snúa vörn í sókn, setti klaufina niður og tók upp á því að stanga í burtu allar kindur sem reyndu að ná einhverri auka athygli. Hún lét ekki þar við sitja heldur fannst henni nauðsynlegt að stanga mig í hvert skipti sem ég hætti að klappa henni og uppskar þannig um það bil klukkutíma stanslaust klapp… Það verður seint sagt um hina íslensku sauðkind að hún kunni ekki að bjarga sér 😊

 


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s