Það hefur löngum verið sagt hér á landi að helsta umræðuefni innfæddra sé veðrið. Það er enda ekki að ástæðulausu þar sem fjölbreytileika íslensks veðurfars virðast engin takmörk sett, ásamt því að veðrið hafði alveg ákaflega mikil áhrif á lífsskilyrði horfinna kynslóða sem smitast yfir í landann enn þann dag í dag.
Á veturna getur verið hláka og logn, hláka og rok, hálka og logn, hálka og rok, snjókoma og rok, snjókoma og logn og bara yfirleitt allar blöndur af veðurþáttum sem hægt er að finna upp á.
Þó að veðrið geti verið ákaflega síbreytilegt bæði landshluta á milli og árstíða á milli þá hefur hingað til alltaf verið hægt að finna ákveðna reglu í hlutunum. Hérna megin á landinu hefur það til dæmis verið ávísun á hríð ef það er spáð á norðan, norðaustan eða norðvestanveðri með úrkomu, og sömuleiðis hefur það yfirleitt þýtt hláku ef það er spáð á sunnan, suðaustan eða austanátt með úrkomu.
Það sem af er ári 2018 hefur veðrið hins vegar verið í hálfgerðri uppreisn. Í síðustu viku var sunnanhríð með mikilli ofankomu. Hálfgert hríðarveður var að sunnan og fyrir okkur sem erum vön norðanhríð varð þetta til þess að hríðarskaflar lentu á öðrum stöðum en venjulega. Um helgina var svo mikil ofankoma í logni, sem þýðir að lausamjöllin var orðin veruleg eftir úrkomu helgarinnar.
Á mánudaginn síðasta rauk svo upp í austan hríð. Þessi austanhríð varð til þess að á tímabili var ófært um ýmsar sveitir hérna megin á landinu, lausamjöllin fauk til eins og gefur að skilja og þessi hríð endaði með því að skaflarnir hafa aldrei verið á vitlausari stöðum en akkúrat núna. Svoleiðis hríðar koma afar sjaldan og eru frekar pirrandi þar sem flestar byggingar í dalnum eru miðaðar við norðanhríðar, sem voru þar til í vetur aðalhríðarnar.
Eftir þessar umhleypingar varð mér ósjálfrátt hugsað til fyrri tíma. Mér varð hugsað til fólks sem var á ferðinni á milli bæja í misjöfnum veðrum, áður en ljósastaurar komu á hvern bæ, áður en raflýsing kom á hvern bæ. Fólk sem var með ótrúlegt ratskyn og rambaði á sinn eigin bæ þó að engin kennileiti væru til staðar nema í mesta lagi kerti í glugga.
Í gamla daga voru býli upp um allar heiðar. Engir upplýstir vegir, engin kennileiti nema misauðsýnilegir hólar, mögulega eitt ljós í glugga. Á þessum tímum gat það skilið á milli lífs og dauða að vera sæmilega ratviss.
Ratvísi held ég að sé einn besti eiginleki sem forfeður okkar hafa látið okkur í té. Eiginleiki sem ég held að sé hægt að viðhalda með þjálfun, eiginleiki sem ég held að verði seint ofmetinn.
Eiginleiki sem ég held að sé grunnurinn að björgunarsveitunum okkar, eiginleiki sem ég tel að eigi að viðhalda og efla eins og kostur er