Áramót – tímamót

Hrússi2

Nú er árið rétt að klárast og ýmislegt búið að gerast í lífi sauðfjárbóndans. Fengitími kom og fór og kom aftur, sauðburður hafðist af, heyskapur kláraðist, réttir gengu sinn vanagang.

Þessa dagana eru hrútarnir að sinna skyldustörfum í fjárhúsunum og fyrir utan það er ekki mikið að frétta. Dráttarvélin okkar ákvað reyndar að jólafríið væri tilvalið tækifæri til að vera með leiðindi og þurfti að koma henni í gang með startköplum í gær.

Einn hrúturinn okkar ákvað sömuleiðis að árið í ár væri rétta árið til að vera með leiðindi og er hann búinn að mölva nokkurn veginn allar milligerðir sem hann hefur komist í. Þau eru þung höggin frá blessuðum hrútunum og finnst mér alltaf jafn magnað, þegar ég sé hrúta slást, hversu þung högg þeir þola. Grindverkið í húsunum er því miður ekki jafn harðgert og hausarnir á hrútunum þannig að við höfum þurft að stunda bæði viðbætur og endurbætur á tréverkinu á milli króa.

Hrútar eru nefnilega þeim eiginleika gæddir að ef hrúturinn við hliðina á yfir að ráða fleiri tilkippilegum kindum, finnst þeim það eina í stöðunni að brjótast í gegn. Þarna koma bæði hormón og þróunarsagan til tals, það er nefnilega innbyggt í allar dýrategundir að vilja koma eigin erfðaefnum áfram til næstu kynslóðar (og þar er mannkynið ekki undanskilið). Semsagt… sauðkyn notar hausa og horn, mannkyn notar hnúa og hnefa.

Það er ótrúlega margt líkt með íslensku sauðkindinni og íslensku mannkindinni. Báðar tegundir eru þrjóskar, harðgerðar og langlífar. Báðar tegundir eru bráðlátar, örgerðar og örlátar. Báðar tegundirnar þykir mér vænt um, báðar eru partur af þjóðarsálinni.

Þar sem árið er að verða búið er þessu verkefni mínu til eins árs sömuleiðis að ljúka. Ég mun líklegast halda áfram að skrifa eitthvað en það verður ekki vikulega, því get ég lofað. Þetta er búið að vera ákaflega skemmtilegt verkefni og vona ég að það hafi skilað einhverjum fróðleik til þeirra sem þekkja ekki til sauðfjárbúskapar, jafnvel hinna líka.

Heiðin


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s