Fengitíminn

Hornastór2

Þessa dagana er hið svartasta skammdegi í algleymingi, stystu dagar ársins þjóta framhjá og jólin nálgast á ógnarhraða.

Jólin hafa stundum verið kölluð hátíð hrútanna og stafar það af því að í desember er komið að því að hrútarnir þurfi að vinna fyrir heyinu sínu. Þeim finnst það nú aldeilis ekki leiðinleg vinna enda snýst hún um að búa til lömb og þar með leggja grunn að næsta vori.

Það er aðeins misjafnt á milli bæja hvenær hrútunum leyfist að fara að sinna skyldustörfum. Sumir vilja að sauðburður byrji frekar snemma, jafnvel í apríllok, en sumir vilja hins vegar að hann byrji aðeins seinna. Hér á bæ finnst okkur ákjósanlegt að sauðburður byrji af fullum krafti upp úr 10. maí og er hrútunum þess vegna sleppt í ærnar í kringum 20. desember. Með því að ákveða hvenær sauðburður á að byrja er síðan afar einfalt að reikna út hvenær passar að koma hrútunum til vinnu, en meðgöngutími kinda er 143 dagar að jafnaði.

Hvert bú þarf svo að eiga nokkra hrúta, þar sem að ef einum hrút væri ætlað að sinna mörg hundruð kindum myndi hann fljótt uppgefast. Þess vegna er hverjum hrút yfirleitt ekki ætlað að sinna mikið meiru en 50 kindum.

Krærnar hjá okkur eru fyrir 50 kindur hver og passar því ljómandi vel að hafa einn hrút í hverri kró. Þegar hrútarnir eru komnir í þarf svo að fylgjast með þeim þar sem þeir geta átt það til að vera með leiðindi, ef það er lítið að gera hjá þeim, og fara þá að metast við hrúta í næstu króm. Metingi þessum fylgir síðan yfirleitt að þeir fara að reyna að berja nágranna sína, enda aldrei að vita nema grasið sé grænna hinumegin við milligerðina! Þessu er hægt að komast hjá með því að útbúa grindur og milligerðir þannig að hrútarnir sjái ekki keppinautana í næstu króm.

Flestir eru hrútarnir samt stilltir og una glaðir við sitt þessi dægrin 🙂

Karri


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s