Uppgjörið

Desembersól

Nú er árið heldur betur farið að styttast í annan endann og þar með kominn tími til að gera upp árið og sjá hvernig til tókst í ræktunarstarfinu. Til að skoða það er skýrsluhaldsforritið Fjárvís brúkað og helst þessi skoðun í hendur við að þann 12. desember er skiladagur haustgagna í fjárvís. Skiladagarnir eru semsagt tveir, annar fyrir upplýsingar vorsins og hinn fyrir upplýsingar haustsins.

Að haustinu er ýmislegt sem þarf að skrá svo mögulegt sé að gera upp árið. Í fyrsta lagi þarf að skrá inn sláturupplýsingar þeirra lamba sem fara í hvíta húsið. Það er reyndar afar einfalt verk sem kemur til af því að í hvíta húsinu eru lesin númer af öllum lömbum, skráð við þau bæði fallþungi og flokkun, og skráin síðan send inn í Fjárvís. Þannig þarf bóndinn ekki að gera annað en staðfesta sláturupplýsingar og þar með eru upplýsingarnar komnar þangað inn.

Í öðru lagi þarf að skrá afdrif allra lamba. Þegar sláturupplýsingarnar eru lesnar inn í Fjárvís eru þau lömb sem var slátrað sjálfkrafa skráð með þau afdrif. Bóndinn þarf hins vegar að skrá afdrif á þau lömb sem eftir eru. Þau lömb sem eru sett á fá í leiðinni fullorðinsnúmerið sitt og eru þannig komin í fullorðinna kinda tölu. Stundum eru lítil lömb sett á vetur af því að þau eru of smá til að vera slátrað. Þessi lömb eru almennt kölluð smálömb, en hér á bæ kallast þau púkar. Ég hef ekki skýringu á reiðum höndum varðandi það af hverju það taldist viðeigandi nafn en hins vegar held ég að frændi minn einn hafi fundið upp á þessu. Púkarnir svokölluðu þurfa einnig að fá fullorðinsnúmer, enda settir á vetur. Það er svo misjafnt á milli bæja hvernig númeraröð á fullorðinsnúmerum er, en þó eiga allir bæjir það sameiginlegt að til að aðgreina ær eru notuð þriggja stafa númer. Hér á bæ eru númer á ásetningi viðkomandi árs í beinu framhaldi af ásetningi fyrra árs. Á sumum bæjum eru notuð þriggja stafa númer þar sem fyrsta talan er tala ártalsins og þannig væri nú í ár fyrsta gimbrin númer 701, fyrsta gimbur næsta árs yrði hins vegar númer 801. Aðrir byrja alltaf á tölustafnum 1 og láta ártalið segja til um hver kindin er, en það er þannig með þau merki sem nýtt eru í fullorðið fé að þau eru með fjórum tölum og fyrsta talan er alltaf ártalið, þar á eftir kemur hið fyrrnefnda þriggja stafa raðnúmer.

Fullorðinsmerki
Hér má sjá sýnishorn af fullorðinsmerki

 

Þau lömb sem út af standa þegar búið er að lesa inn sláturupplýsingar og gefa líflömbum fullorðinsnúmer eru svo þau lömb sem vantar, en því miður gerist það á flestum bæjum að það skila sér ekki öll lömb að hausti sem er hleypt út að vori. Við þessi lömb þarf að skrá að þau vanti af fjalli, þar sem ekki er vitað hver endalok þeirra eru.

Þegar búið er að gera grein fyrir afdrifum allra lamba þarf síðan að fara í gegnum fullorðnu ærnar og skrá þær sem fóru í hvíta húsið, sem gerist á sama máta og með lömbin. Sömuleiðis þarf að lesa á allar ærnar til að finna út hvaða ær vantar og hverjar ekki.

Fjárvís býr svo yfir þeim góða eiginlega að vera með villuprófun, það er þess vegna ekki hægt að skila haustgögnum án þess að búið sé að leiðrétta allar mögulegar og ómögulegar villur. Þetta er mikill kostur að mínu mati þar sem alltaf getur eitthvað gleymst á yfirferð nokkurra hundruða gripa. Þegar búið er að skrá inn allar upplýsingar, villuprófa og allar villur eru horfnar er svo ekkert annað að gera en ýta á skila-hnappinn og þar með er Fjárvís-skýrsluhaldi ársins lokið 🙂

Fjárvísskil


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s