
Það er nú þannig að það nægir bændum ekki einungis að hugsa um næringargildi eigin fæðu heldur þurfa þeir að sinna fóðurþörfum bústofns síns að auki. Reyndar held ég að drjúgmargir bændur telji það mikilvægara að hugsa um fóðrun búfjár en bænda en það er annað mál.
Liður í því að geta haft fóðrun sauðkindarinnar eins og best verður á kosið er að taka heysýni. Sýni þessi eru heytuggur sem eru teknar á víð og dreif í töðunni, helst á sem flestum stöðum til að fá sem bestan þverskurð á gæði fóðurs. Það er misjafnt eftir aðstæðum hverju sinni hvort þessi sýni eru tekin um leið og heyið er bundið eða hvort þau eru tekin þegar heyið er gefið. Best er að taka nokkur sýni og reyna þá að sameina í hvert sýni þau hey sem eru svipuð að gæðum.
Til dæmis eru hey af túnum sem hafa nýlega verið endurræktuð almennt orkuríkari en hey af túnum sem lengra er síðan voru ræktuð. Þar að auki skiptir sláttutími máli en gras sem er slegið snemma sumars er næringarríkara en gras sem slegið er síðsumars.
Ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að taka heysýni er annars vegar að hey af ákveðnu túni geta verið afar misjöfn að gæðum á milli ára og hins vegar af því að fóðurþarfir sauðkindarinnar eru misjafnar á milli mánaða.

Helstu ástæður fyrir því að heyið er misjafnt að gæðum er í fyrsta lagi að misjafnar grastegundir eru misjafnlega orkuríkar. Þar að auki skiptir sláttutími máli og sömuleiðis hversu fljótt tekst að binda það eftir slátt. Mismunandi fóðurþarfir kindanna fara hins vegar eftir annars vegar aldri og hins vegar hvort þær eru lambshafandi eða ekki.
Hey versna semsagt að gæðum því seinna sem þau eru slegin og sömuleiðis eftir því sem ræktun á viðkomandi túni er eldri, þar sem að orkuríku grastegundirnar lifa ekki jafn mörg ár og þær lakari. Fóðurþarfir sauðkindinna eru svo ekkert sérstaklega háar fyrst eftir að þær koma inn. Þessar þarfir aukast í kringum fengitíma þar sem það eru meiri líkur til að ærnar verði tvílembdar ef þær eru í góðum holdum um það leyti sem þær hitta hrút, og og aukast svo eðlilega mánuð frá mánuði eftir því sem fóstrin skipa stærri sess í starfsemi líkamans.
Út af þessum ástæðum öllum saman er þess vegna nauðsynlegt að taka heysýni svo bændur viti hvaða efni eru í heyjunum og þar með hvort og hvaða bætiefni þurrfi að gefa kindunum til að mæta þeirra ýtrustu fóðurþörfum.
Í þeim heysýnum sem við kaupum eru fóðureiningar (sem eru dulítið sambærilegar við hitaeiningar), prótein, kalk, fosfór og kalí mæld. Þar að auki eru ýmis snefilefni mæld, en snefilefni eru þau steinefni sem eru nauðsynleg hverri skepnu en þó í minna magni en þau efni er fyrr voru nefnd.
Með þessum upplýsingum öllum er hægt að raða heyfeng sumarsins niður á hin mismunandi fóðurtímabil vetrar. Fyrst þegar ærnar koma inn þurfa þær ekki mjög orkuríkt fóður en þegar fengitíminn nálgast er skipt yfir í betra hey til að auka frjósemina. Eftir fengitímann þurfa þær eingöngu fóður til viðhalds, sem þýðir að þær eiga hvorki að grennast né fitna á þeim tíma. Þegar líður að vori og fóstrin fara að stækka þurfa þær hins vegar smám saman orkuríkara fóður og með því að vita hvert orkugildi hverrar rúllu er verður það afar auðvelt að stýra því að ærnar blessaðar fái fóður eftir þörfum á hverjum tíma.
Efnainnihald fæðu er þannig jafn mikilvægt fyrir kindur og fólk 🙂
