Viðhaldið

 

NHÞegar verið er að höndla með hluti ýmiskonar er afar nauðsynlegt að halda þeim vel við, og þá sérstaklega vélunum enda eru þær ýmsar dulítið dýrar og væri verra ef þyrfti að endurnýja þær einungis vegna vanrækslu.

Áður en byrjað er að slá þarf að smyrja sláttuvélina að innan og utan svo að hnífarnir og annað sem um ræðir gangi nú bæði rétt og smurt. Þar að auki er nauðsynlegt að á vélinni sé nóg af smurolíu. Það sama þarf að gera við heytætluna, dráttarvélina, áburðardreifarann já og bara öll tæki sem nýtt eru við heyskap (nema mögulega hrífuna).

Ástæðan fyrir því er að landbúnaðartæki eru almennt búin til úr járni, þau eru mörg með liðamót og til að liðamót virki eins og þau eiga að gera þarf að vera smurning á þeim. Þetta er svolítið eins og liðamótin á okkur sjálfum. Ef við værum með liðamót sem stæðu bein í bein og ekkert væri á milli væri ekkert sérstaklega þægilegt að hreyfa sig og þess vegna eru brjósk og liðvökvi inni í liðamótunum á okkur. Smurolía gegnir hlutverki liðvökva í landbúnaðartækjum og passar upp á að ekki verði núningur á milli ýmissa hluta. Það er þess vegna afar mikilvægt að passa upp á að þessi liðvökvi tækjanna sé bæði af réttu magni og gerð, til að allt gangi nú eins smurt og mögulegt er.

Það er svo sérdeilis mikilvægt að skipta um olíu á dráttarvélunum reglulega, ásamt því að skipta um síurnar sem sjá um að halda olíunni hreinni. Dráttarvélar eru yfirleitt með dýrustu og mikilvægustu tækjum hvers bús og því til mikils að vinna að þær endist sem lengst.

Við skiptum um olíu á „nýju“ dráttarvélinni í gær. Nýja dráttarvélin okkar er reyndar New Holland sem er árgerð 1999 en það er nú enginn aldur! Næsta dráttarvél í aldri þar á eftir Case 1394 frá árinu 1986, alger eðalvél. Elsta dráttarvélin á bænum er svo hinn dásamlegi David Brown, árgerð 1969, gersamlega ómissandi. Hann er reyndar ekki með húsi en maður getur hvort eð er ekkert heyjað í rigningu svo það skiptir nú engu máli …

Eins og sést á þessum ártölum erum við svolítið hlynnt því að láta vélarnar okkar endast eins lengi og mögulegt er, en með góðu viðhaldi á vélunum er það ekki mjög erfitt. Það er bara eins með skrokkinn á okkur og vélunum, eftir því sem betur er hugsað um heilsusamlegt líferni því betur endumst við!

Það getur þó vissulega komið að því að ævidagar véla verði upprunnir, til dæmis sagði heytætlan okkar af sér í sumar eftir einungis 28 ár… skandall… við splæstum þess vegna í nýja heytætlu um daginn og gerum fastlega ráð fyrir að hún endist jafn lengi, ef ekki lengur, en hin fyrri.

Grundvöllurinn fyrir því að nýja tætlan endist vel er þess vegna að hugsa vel um hana.

Já, viðhaldið skiptir máli!

Heyvinnutæki


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s