Skýrsluhaldið

Agnarögn og ég
Agnarögn að hressa mig í veikindunum

Stundum kemur það fyrir bændur að heilsufarið er ekki upp á marga fiska (eða skrokka). Undanfarna viku hefur hryggurinn á mér verið í verkfalli og hamlað mér frá því að gera nokkurn skapaðan hlut annan en að geðvonskast yfir ástandinu.

Þegar þannig háttar er gott að grípa til verkefna sem krefjast ekki góðs líkamlegs atgervis, og er ég þess vegna búin að vera að færa skýrsluhaldið í fjárvís undanfarna daga.

Eins og ég hef sagt frá áður er það lykillinn í gæðastýringu og rekjanleika afurða að fjárbókhaldið sé rétt og vel fært. Skiladagar á fjárbókhaldinu eru tveir á ári, sá fyrri er 20. ágúst og sá síðari 12. desember. Það sem er fært inn í skýrsluhaldið á sumrin eru upplýsingar frá sauðburði. Semsagt hversu mörg lömb hver kind átti, hvers kyns þau voru, hvernig á litinn og síðast en ekki síst, hvaða númer hvert lamb fékk. Það er nefnilega grundvöllur þess að mögulegt sé að komast að því hvaðan hvert lamb er að það sé með sitt einstaklingsnúmer eða kennitölu.

Á sauðburði skráum við þessar upplýsingar í fjárbókina okkar góðu, þar sem þá gefst ekkert endilega tími til að demba upplýsingunum beint inn í tölvu. Þegar líður á sumarið er hins vegar kominn tími til að smella þessum upplýsingum öllum inn í Fjárvísinn góða sem er á netinu. Þá ríður á að upplýsingar vorsins hafi verið rétt og vel færðar inn í fjárbókina en það er grundvöllur þess að hægt sé að færa rétt í netbókina.

Við erum með ágætis kerfi (að mínu mati allavega) á því hvernig fært er inn í vorbókina. Á sauðburði er farið um fjárhúsin einu sinni á sólahring (í kringum miðnætti) og skráð hvaða lömb fæddust þann daginn. Um leið eru kyn og litur skráð. Við mörkun eru númer lambanna síðan skráð hjá móðurinni. Vorbókin er nefnilega þannig úr garði gerð að það eru ákveðnir reitir við hverja kind til að skrá allar þessar upplýsingar. Í þessum reitum er gert ráð fyrir tveimur lömbum við hverja kind. Það er þess vegna hægt að skrifa mjög stórt ef kindin á einungis eitt lamb, en hins vegar þarf að skrifa afar smátt ef hún á fleiri en tvö lömb. Það er hins vegar ekkert sem kemur að sök og venst eins og annað.

Með þessari skipulagningu er frekar auðvelt að færa upplýsingar úr vorbókinni yfir í Fjárvís, sem gerir þetta starf létt og þægilegt. Það getur síðan komið fyrir í hita leiksins að sumar kindur séu dulítið pirrandi og fái athugasemdir þar að lútandi eins og sést hér að neðan en viðkomandi kind er svo mikil móðir að hún emjar í hvert skipti sem lömbin leggja sig undir garða…. vissulega er gott að hún sé svona góð móðir ein hins vegar er hún ekki með hljómfegurstu rödd sem ég hef heyrt og getur verið pínulítið þreytandi að hlusta á hana í heila nótt…. 🙂

Röddin


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s