Góð girðing er grannabætir segir eitt máltækið sem við Íslendingar eigum. Það má til sanns vegar færa, enda eru girðingarmál talin það mikilvæg að um þau er til heill lagabálkur, sem heitir því hentuga nafni Girðingarlög. Í þessum lögum eru ýmsar upplýsingar, t.d. hvernig girðingar af ýmsum toga eiga að vera útbúnar, hvað á að vera langt á milli staura og fleira þvíumlíkt. Þar segir líka hver ber ábyrgð á viðhaldi girðinga en það er þannig að ef um svokallaðar merkjagirðingar er að ræða, sem eru girðingar á landamerkjum, skipta jarðareigendur kostnaði við þær til jafns á milli sín. Ef um girðingar innan jarðar sér jarðareigandinn einn um kostnaðinn en ef um vegagirðingar er að ræða eru það annars vegar bóndinn og hins vegar Vegagerðin sem skipta á milli sín kostnaði.
Girðingar sem sauðfjárbændur nýta til að halda kindunum sínum á réttum stöðum eru yfirleitt þannig úr garði gerðar að notað er vírnet, ýmist 5 strengja eða 7 strengja. Með strengjum er þá átt við láréttu vírana. Gaddavír er settur bæði undir og yfir og svo eru staurar til að halda netinu uppi. Um fjórir metrar eru hafðir á milli staura og því þónokkrir staurar sem fara í hvern kílómetra af girðingu.
Þegar verið er að leggja nýja girðingu er yfirleitt hafist handa við að setja niður staurana (já og ákveða í leiðinni hvar eigi að vera hlið á girðingunni). Það er nefnilega mikilvægt að girðingar séu sem beinastar, það minnkar viðhald og erfiði við lagningu girðingar, og er því kappkostað í byrjun við að ná stauralínunni þráðbeinni. Stundum þarf að slétta undir verðandi girðingarstæði, þá sér í lagi ef um splunkunýja girðingu er að ræða, en yfirleitt þarf ekki að slétta mikið ef einungis er verið að endurnýja girðingu sem þegar er til staðar. Til að pota staurunum niður er síðan ýmist notuð dráttarvél, þar sem henni verður viðkomið, eða járnkarl og sleggja. Yfirleitt er reynt að nota dráttarvélina þar sem hún fer betur með skrokkinn en sleggjan blessuð.
Þegar búið er að ná staurunum réttum er hafist handa við að rúlla niður girðingarnetinu. Til að girðingin endist sem lengst og best þarf síðan að strekkja netið mátulega mikið, en ef netið er slakt heldur það kindunum síður og geta þær jafnvel átt til að stökkva yfir það. Ef girðingar eru hins vegar vel strekktar og fínar eru þær blessaðar fljótar að komast að því og læra að halda sig réttu megin. Eftir að netið er komið á sinn stað er gaddavírinn svo lagður, undir og yfir eins og áður sagði.
Þegar búið er að berja niður staura á rétta staði og strengja net og vír er svo komið að því að negla bæði netið og vírinn á sinn stað á staurnum en til þess eru notaðar svokallaðar girðingarlykkjur, sem við köllum reyndar kengi. Þær eru eins og U í laginnu, með odd á báðum endum, og fara þannig utan um hvern streng og halda honum föstum.
Þegar öllu þessu er lokið kemur síðan til frágangur á girðingum. Þá eru til dæmis sett svokölluð sig á girðinguna, en það er semsagt vírþráður með steini í endann sem er settur á girðingar til að þær hangi ekki bara á lofti þar sem eru lautir og dældir.
Svona fer gerð nýgirðinga semsagt fram en svo þarf líka að halda við þeim girðingum sem fyrir eru, en það væri frekar dýrt ef þyrfti að gera nýjar girðingar annað hvert ár einungis vegna skorts á viðhaldi. Já, þarna sannast enn og aftur að viðhaldið skiptir máli!
Það þarf semsagt að fara með hverjum girðingarmetra á hveru sumri, berja niður þá staura sem mögulega hafa gengið upp úr jörðinni vegna frostlyftinga, bæta við kengjum þar sem þarf og gera við göt ef einhver eru.
Þessi girðingarvinna öllsömul borgar sig hins vegar ágætlega vel þegar verið er að smala, enda er ekkert ergilegra en að vera að reka kindahóp til byggða og sjá svo á eftir honum í gegnum gat á girðingu. Góðar girðingar eru þannig líka stór liður í að viðhalda góða skapinu í bændum 🙂
Garður er granna sættir, segir máltakið og hefur verið heimfært á girðingar. Ágæt samantekt hjá þér en nefnir ekki rafgirðingar og eða kosti þess að hafa efsta strenginn rafmagnaðann.
Líkar viðLíkar við