Gangnaundirbúningur

Gáski smali
Gáski minn, eðalsmalahestur, í blíðskaparsmalaveðri

Núna er september hafinn, höfuðdagur liðinn og göngur hefjast á mánudaginn næsta. Það er því óhætt að segja að haustið nálgist óðfluga og ekki seinna vænna að fara að undirbúa göngur.

Göngurnar okkar fara fram á Víðidalstunguheiði, en hún er staðsett fyrir framan dalinn okkar góða. Það er líklega rétt að útskýra hér í leiðinni hvað við meinum með að hún sé fyrir framan dalinn, það er nefnilega aðeins misjafnt eftir landshlutum hvernig áttir og stefnur eru útskýrðar. Hér norðan megin á landinu förum við úteftir þegar við erum að fara niður að sjó en frameftir þegar við erum að fara inn til landsins. Sunnan megin á landinu er hins vegar farið inneftir þegar farið er á heiðarnar en frameftir þegar farið er niður að sjó. Þetta virðist kannski pínulítið flókið er það þó ekki í raun, frameftir er nefnilega suðurátt í báðum landshlutum.

Þegar er verið að smala stór landsvæði er mikilvægt að vera með nægan mannskap og til að það sé nú sem jafnast á milli bæja hversu marga gangnamenn hver á að senda er þessum störfum jafnað niður á bæi sveitarinnar með svokölluðum fjallskilum. Þannig er reiknuð ákveðin upphæð á hverja kind í sveitinni, ákveðin upphæð á hvert hross í sveitinni og svo er reiknuð ákveðin upphæð á fasteignamat jarða að auki. Þetta er gert til að jafna niður heildarupphæðinni sem fer í að sinna göngum. Þegar búið er að finna þessa heildarupphæð er fjölda gangnamanna jafnað niður á bæi og eru fjallskil svo lækkuð fyrir hvern gangnamann sem fer í göngur af viðkomandi bæ.

Þar sem ekki er eins margt fólk í sveitinni í dag eins og var fyrir einhverjum áratugum þurfum við núna að senda fleiri menn í göngur en var þá. Hins vegar kemur á móti að í gamla daga voru allir á hestum en núna eru nokkur fjór- eða sexhjól farin að fara og geta þau smalað stærra svæði en þeir sem eru á hestum. Þannig hefur gangnamönnum aðeins fækkað á móti. Ástæðan fyrir því að þeir sem eru á hjólum geta smalað stærra svæði er að stórir hlutar heiðarinnar eru afar blautar og fúnar mýrar sem eru ófærar hestum. Hjólin fljóta hins vegar ofan á mýrunum á sínum blöðrudekkjum og geta þannig brunað beint yfir mýrar sem menn á hestum þyrftu að fara í kringum.

Eins og áður sagði fara fyrstu menn fram til heiða á mánudaginn, síðustu menn koma síðan niður á föstudaginn næsta. Heiðinni er tvískipt um Víðidalsá og koma þeir sem eru vestan við ána niður á fimmtudaginn en þeir sem eru austan við koma niður á föstudaginn. Það kemur til meðal annars af því að gangnamenn að austan smala hluta af Víðidalsfjalli í leiðinni. Heiðin vestan við á er kölluð í daglegu tali Tungurnar en heiðin austan við á kallast því einfalda nafni Austurheiðin. Allt þetta Tungutal, og þar á meðal nafnið á Víðidalstungu, kemur síðan af því að bærinn stendur á svokallaðri tungu sem er á milli Víðidalsár og Fitjaár.

Réttirnar eru síðan tvær, Valdarásrétt í Fitjárdal, sem okkar fé kemur að mestu niður í, og Víðidalstungurétt í Víðidal en þar kemur austurheiðarféð niður. Það kann að skjóta frekar skökku við að féð okkar komi ekki niður í Víðidalstungurétt en það kemur til af því að í þá gömlu góðu daga, þegar fé var rekið fram á heiðar, ráku þeir bæir sem voru vestan við á upp þeim megin en þeir sem voru austan við á ráku upp þeim megin. Þar sem við erum vestan við ána rákum við semsagt upp vestan megin og hefur þessi hefð haldist síðan. Víðidalstungurétt heitir svo þessu nafni af því að hún stóð lengst af í landi Víðidalstungu, og hefur nafnið haldist síðan.

Þessi gangnamál geta verið pínulítið flókin og stundum er bras við að finna næga gangnamenn, hefur undanfarin vika meðal annars farið í ýmsar reddingar sem fylgja göngum. Alltaf gengur þetta nú samt upp á endanum og fólk, fé og hross kemst til byggða.

Næsta mál á dagskrá er svo að biðja til veðurguðanna um þokulausa gangnaviku en það er grundvallarskilyrði fyrir því að vel gangi í göngum að smalarnir sjái kindurnar 🙂

Smalismal
Ekki amalegt að vera fram á Tungum í svona veðri

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s