Réttahelgin mikla

Réttir
Féð komið i dilkinn

Vikan er heldur betur búin að vera viðburðarík og uppfull af verkefnum, enda var þetta gangna- og réttarvikan okkar.

Þar sem gangnamennirnir okkar eru nokkra daga í göngum gista þeir á heiðinni frá mánudegi til fimmtudags. Fyrstu tvær næturnar gista allir saman í Fellaskála, sem er fremsti skáli á heiðinni. Á miðvikudegi, þegar allt er samkvæmt plani, er farið af stað niður í þrjá skála. Einn þeirra er á austurheiðinni og heitir Haugakvíslarskáli, svo eru tveir skálar á Tungunum. Skálinn á austurtungunni heitir Bleikskvíslarskáli en sá vestan megin heitir Mönguhólsskáli. Í öllum þessum skálum eru ráðskonur til að útdeila mat, enda er nauðsynlegt að fá gott að éta eftir langan dag í smalamennskum.

Við fengum tvo góða pilta til að fara í göngurnar fyrir okkur þetta haustið, annar var á hjóli og hinn á hestum. Sjálf var ég ráðskona í Bleikskvísl og að sjálfsögðu hafði ég lambakjöt í matinn.

Það leit nú reyndar ekki út fyrir það á miðvikudagsmorgun að ég kæmist yfirleitt fram til að gefa gangnamönnum að éta þar sem það var þoka vel fram yfir hádegi. Það létti hins vegar til upp úr því og gangnamenn rétt náðu frá Fellaskála yfir í hina skálana fyrir myrkur á miðvikudaginn.

Á fimmtudeginum var hins vegar bjart og fallegt veður, allir jöklar berskjaldaðir fyrir sólinni, norðangjóla til að ekki yrði of heitt á rekstrinum og þess vegna ákjósanlegt smalaveður á allan hátt.

Göngur3
Safnið á leið niður

Besta smalaveðrið er nefnilega þegar það er sólskin, norðanátt og hiti undir 10 stigum. Ef hitinn er mikið hærri en það verður nefnilega lýjandi fyrir kindurnar að hreyfa sig hratt, enda eru þær allar kyrfilega klæddar í lopapeysur, og þá gengur reksturinn hægar en ella.

Þetta gekk alltsaman ljómandi vel þetta árið, kindurnar voru sprækar og alveg til í að komast niður í byggð, og var fjársafnið komið niður í Valdarásrétt fyrir myrkur, sem er ótrúlega góður árangur í ljósi þokutafanna. Kindurnar eyddu svo nóttinni í svokallaðri safngirðingu, en það er stórt hólf sem er tengt við réttina, en þar fer ljómandi vel um þær.

Valdarásrétt var síðan haldin í gær í blíðskaparveðri, svo góðu veðri meira að segja að fólk var farið að stunda fjárdrátt á stuttbuxunum!

Réttir landsins eru yfirleitt byggðar þannig að það er hólf inni í miðjunni á þeim sem kallast almenningur, og hringinn í kringum þennan almenning eru önnur hólf sem kallast dilkar. Hver bær á svo sinn dilk og dregur féð úr almenningnum og yfir í sinn dilk. Með þessu lagi komast allar kindur til síns heima.

Þetta árið höfðum við  yfir að ráða her manns af úrvals fólki til að hjálpa okkur við fjárdrátt dagsins. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur bændur að hafa gott fólk með í þessum helstu skorpuvinnum og kann ég öllu þessu fólki bestu þakkir.

Féð okkar var svo rekið yfir í Víðidalstunguland eftir rétt, þar höfðum við líka einvalalið til aðstoðar, og gekk þetta verkefni þannig fljótt og vel.

Það er svo sannarlega gott að eiga góða að!

Göngur2


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s