
Ekki er nú allt smalerí búið þó að göngur og réttir séu afstaðnar. Núna um helgina er nefnilega svokölluð heimalandasmölun, öðru nafni skyldusmalamennska.
Þessar heimalandasmalamennskur eru tvær á hverju hausti, og þá eiga allir landeigendur að smala kindum í sínu landi. Á sunnudeginum er síðan skilarétt, en þá koma bændur með þær kindur sem voru ókunnugar hjá þeim með sér í réttina og hver dregur svo sínar kindur til síns heima. Þessi rétt er hins vegar mun minni heldur en réttirnar um síðustu helgi, enda flest komið til síns heima eftir þær.
Þessar smalamennskur hjá okkur skiptast í tvennt. Í gær vorum við að smala landið fyrir ofan veg, og fékk ég vaska vinkonu með mér í það starf þetta árið þar sem systir mín átti ekki heimangengt. Jafnframt voru fleiri til aðstoðar þar sem kindum á þremur jörðum fyrir framan og til hliðar við okkur er smalað niður í okkar land. Það stafar af því að það er bæði stysta og þægilegasta leiðin til byggða fyrir þær kindur sem þar eru.
Girðingin sem er beint fyrir ofan veginn kallast Stóra girðing en landið fyrir framan hana kallast Mýrdalur. Þarna á milli er svo girðing. Þar að auki eigum við lítið hólf fyrir ofan veg, sem kallast Litla girðing, og inni í þessari girðingu eru gömul beitarhús.
Þar sem þessi Litla girðing er frekar víggirt ákváðum við svo að geyma kindurnar sem komu framan að í henni í nótt, en ef við hefðum rekið þær niður fyrir girðingu í gær hefðu þær allt eins getað brunað yfir ána í nótt og þar með ekki verið til staðar í dag þegar verið var að reka inn.
Við systur fórum því ríðandi í morgun upp í Litlu girðingu í þeim tilgangi að reka kindurnar niður fyrir veginn og heim í fjárhús. Þetta gekk í heildina ágætlega þó að það hellirigndi á okkur til að byrja með, en það er nú enginn verri þó hann vökni svo það kom ekki að sök.
Kindur eru hins vegar þeim eiginleika gæddar að stundum vilja þær fara sínar eigin leiðir, það eru nefnilega alls ekki allar kindur þjakaðar af hinu svokallaða hjarðeðli. Flestar kindurnar hlaupa beinustu leið heim en svo eru alltaf einhverjar eftirlegukindur sem þykjast ekki sjá hliðið sem þær eiga að fara í gegnum og hlaupa til baka. Við Gletta mín, aðalsmalahrossið mitt, lentum heldur betur í því í dag þegar við þurftum að elta eina kind allavega þrjá hringi í kringum beitarhúsin. Þegar ég var búin að komast fyrir kindina öðru megin við húsin fór hún nefnilega alltaf hinumegin og var mér á tímabili farið að líða eins og ég hefði óvart lent í miðjum upptökum á Tomma og Jenna-þætti.
Eflaust hefur þetta kætt ferðamennina sem þurftu að bíða á meðan við vorum að reka kindurnar niður fyrir veg töluvert, allavega virtist mér þeir allir vera alveg svoleiðis skælbrosandi á svipinn 🙂
Allt hafðist þetta svo að lokum og núna erum við búin að taka ókunnugu kindurnar frá og flytja þær út í rétt, ásamt því að við erum búin að taka lömbin frá en núna eiga þau að verða eftir heima og bíta túnin, á meðan fullorðnu ærnar fara aftur upp í Stóru girðingu fram að næstu heimalandasmölun.
Alltaf er það nú skemmtilegt þegar kindur og lömb koma heim, hitta gamlar vinkonur og sjá lömbin sem við hjálpuðum í heiminn í vor spretta úr spori, frískleg og falleg.
Við systur komumst reyndar að því að sennilega yrðum við að setja kvóta á okkur þetta haustið varðandi það hvað við setjum á margar flekkóttar gimbrar, þær voru bara allt í einu orðnar miklu fleiri en mér fannst þær vera í vor!

Flottur pistill Sigríður
Líkar viðLíkar við