Smalabrjálæði

Smalabrjál1

Það er nú eiginlega ekki hægt að vera með smalapistla viku eftir viku og minnast ekki einu orði á hið margfræga smalabrjálæði.

Smalamennskur eru, eins og áður hefur verið minnst á, ýmiskonar. Sumir smala á hjólum, sumir á hestum og sumir á tveimur jafnfljótum. Meginstefið í þessum smalamennskum er hins vegar alltaf að koma kindunum til byggða, sama hvaða farartæki eru nýtt til þess.

Það sem er einnig sameiginlegt með smalamennskum er að ýmiskonar hljóð eru nýtt til að huska kindunum áfram. Geta þessi hljóð verið allt frá flauti yfir í gelt og fer það mest eftir hugmyndaauðgi smalans hvaða hljóð verða fyrir valinu. Ég sjálf tek sópranröddina yfirleitt í notkun, á milli þess sem ég gelti á við besta smalahund. Kindurnar mínar eru reyndar farnar að venjast þessum óhljóðum mínum frekar mikið og eru ekkert til í að hreyfa sig úr stað eingöngu af því að heyra mína ómfögru rödd, nema mögulega að ég standi beint fyrir aftan þær þegar hljóðin bresta á. Það sem er nú merkilegast í þessu öllu saman er reyndar hvað smalahrossin eru fljót að venjast þessum óhljóðum, enda er sá eða sú sem framkallar óhljóðin yfirleitt á baki þeim. Það tekur semsagt yfirleitt ekki meira en 1-2 skipti fyrir smalahross að venjast hljóðunum og reyndar var Moldi minn orðinn fullkomlega sáttur við þetta í fyrstu smalamennsku okkar.

Smalabrjálæði er svo hugtak sem er frekar velþekkt í huga þjóðarinnar en sést sem betur fer ekki oft nú á dögum. Fyrr á tíðum var það hálfgerð lenska að eftir þvi sem fólk hamaðist meira og bægslaðist meira á eftir fjársafninu því duglegra var það talið. Þessi skilningur á smalamennskum hefur sem betur fer snarminnkað á undanförnum árum og sést varla nú til dags, enda borgar sig ekki að fara of hratt að hinum íslenska fjárstofni. Það er nefnilega bara staðreynd að þegar kindur þurfa að fara í gegnum dyr eða hlið þá komast ekki allar í gegn í einu,  en það er eins og þessi staðreynd hafi verið eitthvað á reiki fyrr á tíðum. Eru velflestir smalar með þetta á hreinu nú til dags, sem betur fer.

Sauðkindin blessuð getur þannig framkallað ýmsar misgóðar hliðar á mannkindinni og það er ástæðan fyrir því að þetta hugtak, smalabrjálæði, lifir enn í þjóðarsálinni. Yfirleitt snéri brjálæði þetta samt ekki að kindunum heldur að öðrum smölum. Urðu þeir sem reyndari voru þannig alveg snarbrjálaðir yfir því að busarnir stæðu ekki á réttri þúfu við ýmiskonar aðstæður og mátti á stundum skilja hlutina þannig að heimsendir væri hreinlega í nánd væru slík þúfnamistök gerð.

Þetta svokallaða smalabrjálæði hefur nú sem betur fer minnkað undanfarin ár, eða það er allavega mín tilfinning. Það borgar sig nefnilega margfalt að geta haft stjórn á sér þar sem það skilar nákvæmlega engu nema í mesta lagi vandræðum ef smalar verða vitlausir í smalabrjálæði.

Smalabrjál2


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s