Góður ásetningur

Ásetningur
Það er nauðsynlegt að litadýrðin setji sitt mark á ásetninginn 🙂

Í sauðfjárrækt er það óhjákvæmilega svo að kindur, eins og önnur dýr, veikjast og eldast. Þess vegna þarf alltaf að endunýja ákveðinn hluta bústofnsins á hverju ári. Það eru semsagt valdar gimbrar í staðinn fyrir þær ær sem hverfa á braut, ásamt því að alltaf eru valdir nokkrir nýjir hrútar á hverju hausti í staðinn fyrir eldri hrúta. Þetta val á líflömbum kallast ásetningur öðru nafni.

Þegar bændur velja þau lömb sem koma til greina í ásetning þarf að huga að ýmsu, ásetningurinn þarf nefnilega að takast vel til að meiri líkur séu á að líflömbin skili góðum afurðum þegar þau verða stór. Til að byrja með er reynt að velja þyngstu lömbin, en þau lömb sem eru bráðþroska eru líklegri til að skila þeim eiginleika áfram til afkvæmanna, og það telst kostur í tilfelli lamba að vera fljótur að stækka.

Næst þarf að skoða ættartré lambanna, en þar sem afurðasemi kinda ákvarðast að töluverðum hluta af erfðamengi þeirra, er nauðsynlegt að kynna sér hvernig afurðir hafa verið hjá mæðrum og systrum þeirra.

Síðast en ekki síst eru lömbin síðan skoðuð í bak og fyrir og þuklað á þeim til að reyna að finna út hvaða lömb eru með mesta vöðva.

Sumir bændur sjá um þetta þukl sjálfir en þó eru fleiri sem fá svokallaða ráðunauta til að þukla lömbin fyrir sig. Ráðunautar þessir eru menntaðir í búvísindum ásamt því að fara á samræmingarnámskeið minnst annað hvort ár, og með þessari aðferð næst samræmt mat yfir landið allt. Þess má svo til gamans geta að höfundur þessa pistils er einn af þessum svokölluðu ráðunautum 🙂

Þegar möguleg líflömb eru skoðuð og metin eru lömbin annars vegar ómskoðuð og hins vegar stiguð, en það þýðir að þau fá ákveðna gæðaeinkunn fyrir hvern hluta af kroppnum. Lambhrútarnir eru dæmdir mun nákvæmar en gimbrarnar, sem stafar af því að hrútar eignast yfirleitt mun fleiri afkvæmi en ær, fái þeir vinnu við kynbætur á annað borð.

Ómsjá
Ómskoðun, þverskurður af hryggvöðva

Ómskoðun er framkvæmd á spjaldhryggnum á lömbum. Þá er ómsjá nýtt til að mæla þykkt hryggvöðvans, fituna ofan á hryggnum og hvernig lögunin á hryggvöðvanum er. Síðan er tekið til við að stiga lömbin. Á gimbrum er athugað hvort þær eru með rana eða skúffu, en ef annar kjálkinn er lengri en hinn getur það haft áhrif á hæfni kindarinnar til að éta. Síðan er þeim gefin einkunn fyrir frampart, læri og ull. Á hrútum eru mælingarnar, eins og áður sagði, umfangsmeiri. Þeir eru ómskoðaðir eins og gimbrarnar en að auki fá þeir einkunn fyrir haus, háls og herðar, bringu og útlögur, bak, malir, læri, ull, fætur og samræmi. Þar að auki er gáð að því hvort þeir séu ekki örugglega með tvö eistu en samkvæmt vísindunum geta frjósemisvandamál fylgt skorti á eistum.

Þegar lokaásetningurinn er valinn er síðan horft til allra þátta; þunga, ætternis og stigunar. Þannig á næsta kynslóð að verða betri en hinar fyrri, og þannig verða kynbætur til.

Dómablað
Dómar á lömbum eru skráðir á blöð sem þetta, og þaðan fara þeir inn í Fjárvís

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s