Núna um helgina var seinni skyldusmalamennska, en þessar smalamennskur eru eins og áður hefur verið minnst á tvær á hverju hausti. Síðari heimalandasmölun fer fram á sama hátt og hin fyrri, eini munurinn er sá að það er færra fé þar sem megnið af fénu er þá komið niður undir bæi á láglendisbeit. Þessi seinni smalamennska er nú samt nauðsynleg því alltaf geta birst einhverjar eftirlegukindur, og voru það 8 kindur sem komu framan af ás í gær.
Við systur fórum semsagt í gær og sóttum þessar kindur með hjálp góðra nágranna, og í leiðinni smöluðum við fullorðnu kindunum niður fyrir veg. Þær eru nefnilega búnar að vera í Stóru girðingunni okkar, fyrir ofan veg, frá því í fyrri heimalandasmölun. Núna fara kindurnar hins vegar ekki uppfyrir aftur fyrr en á næsta ári, og næsta mál á dagskrá hjá þeim er að bíta sinuflókann á áreyrunum okkar.
Þessi smalamennska gekk alveg ljómandi vel enda kom bæjarhrafninn og aðstoðaði okkur við smalamennskuna. Ég held við höfum aldrei kynnst eins skondnum hrafni en hann var afar spakur, flaug rétt fyrir ofan okkur og stakk sér reglulega niður að kindunum til að hotta þeim áfram. Þar að auki flaug eitt stykki örn yfir okkur rétt um það leyti sem ærnar voru að renna yfir veginn, en hann kemur yfirleitt á haustin og heilsar upp á okkur í dalnum. Já það er sko nóg af lífi í sveitinni!
Í dag smöluðum við fénu svo inn í hús og tókum bæði ókunnugt fé og lömbin frá. Þegar verið er að leita að ókunnugu fé í heilli hjörð þá er ótvíræður kostur að vera annaðhvort fjárglöggur, markglöggur eða bæði. Þeir sem eru fjárglöggir þekkja ókunnugar kindur úr sinni eigin hjörð og eru þannig fljótari að finna þær. Þeir sem eru markglöggir eru sömuleiðis fljótari að sjá hvaða kindur eru ókunnugar með því að horfa á eyrun á þeim og sjá hvaða mörk eru ókunnug. Þannig er það töluverð vinnuhagræðing að vera þessum kostum búinn. Þó getur alltaf ein og ein kind farið framhjá og var einn góður bóndi hér í sveit sem sagði forðum daga (eða fyrir svona 30 árum síðan) að það þyrfti að vara sig á mislitnum. Þetta var alveg rétt hjá honum finnst okkur því það er einhvern veginn mun auðveldara að taka ekki eftir því ef mislitar kindur eru ókunnugar. Ekki veit ég skýringu á þessu, kannski gerir maður bara ráð fyrir að maður þekki þær á svipnum en sú er víst ekki alltaf raunin.
Á morgun er svo skilarétt hin síðari, vonandi fáum við einhverjar kindur þar en okkur vantar enn svolítið af kindum og lömbum. Núna er þess vegna ekkert annað að gera en að svífa inn í draumalandið og láta sig dreyma um góðar heimtur á morgun 🙂
