Skítverkin enn og aftur

hrutabossar

Í apríl síðastliðnum fjallaði ég um verðmæti þeirra afurða sem koma aftan úr kindum.

Það fylgir þessum afurðum, sem lenda á neðri hæð fjárhúsanna, að ár hvert þarf að koma þeim í nýtingu. Þess vegna dreifa bændur skít á tún sín, ýmist vor vetur eða haust, en í fornsögum var þetta kallað að aka skarni á hóla.

Það er misjafnt bæði eftir bæjum, búfé og stærð haughúsa hvernig búfjáráburði er dreift. Sum haughús eru þannig stærri og önnur minni, eins og gengur. Sum haughús eru að auki eins og hjá okkur þar sem hægt er að aka dráttarvél inn til að moka skítnum út, en önnur eru þannig að ná þarf skítnum út með haugdælum. Þessar haugdælur virka hálfpartinn eins og ryksugur, þær soga skítinn upp úr haughúsinu og demba yfir í haugtanka. Þessir tankar eru síðan nýttir til að dreifa skítnum þangað sem hann á að fara.

Það er sömuleiðis misjafnt hvenær skítnum er dreift. Sumir dreifa á haustin, aðrir yfir vetrartímann og enn aðrir á vorin. Algengast held ég þó að sé að dreifa á haustin, í það minnsta hjá sauðfjárbændum, en það kemur til af því að næringarefnin í skítnum nýtast ekki jafnvel á veturna eins og að vori og hausti, og það er hreinlega ekki hægt að komast um öll tún að vori þar sem túnin okkar góðu geta verið frekar blaut þegar klaki er að fara úr þeim. Sömuleiðis skiptir máli hvað haughúsin eru stór, það þarf nefnilega að tæma þau oftar eftir því sem þau eru minni.

Við dreifum skítnum okkar að hausti og dreifum skítnum á sitthvor túnin á milli ára. Skíturinn er nefnilega ákaflega jarðvegsbætandi og þess vegna þurfa öll túnin á því að halda að fá búfjáráburðargjöf reglulega.

Þetta haustið fór skíturinn á hið svokallaða Ytra-tún, sem er sparitúnið okkar. Sparitún þýðir semsagt að besta heyið okkar kemur af þessu túni, enda er það alltaf friðað fyrir beit á vorin og er það tún sem er styst síðan var endurræktað.

Síðustu vikur eru kindurnar okkar búnar að vera á beit á þessu túni. Það er nefnilega nauðsynlegt að það sé ekki of mikið gras á túnum að hausti þar sem það getur orðið til þess að tún kali ef veðurfar er slæmt, ásamt því að það er ekki gott fyrir heyskap næsta árs ef mikið af grasi fyrra árs er að þvælast fyrir.

Við erum svo búin að vera að dreifa skít á túnið þessa vikuna, og kunnu ærnar okkur litlar þakkir fyrir þar sem þær höfðu fullan hug á að bíta túnið lengur fram á haustið. Það er nefnilega þannig að kindur vilja ekki bíta gras af svæðum sem búið er að dreifa kindaskít á, og er þetta náttúruleg vörn gegn smitsjúkdómum. Það er nefnilega innbyggt í eðli þeirra sú vitneskja að þær geti smitast af sjúkdómum með því að bíta gras nálægt saur annarra kinda. Þetta á við fleiri búfjártegundir og sést best í því að kindur eru alveg til í að bíta gras sem er nálægt hrossaskít og sömuleiðis er hrossum alveg sama þó kindur hafi gert stykkin sín nálægt grasinu þeirra. Þetta kemur til af því að sjúkdómar smitast sjaldnast á milli tegunda.

Náttúran og þróunin eru nefnilega alveg ótrúlega mögnuð, lausnarmiðuð og skynsöm 🙂

Skítverk1
Skítverk vinstra megin og hreint svæði hægra megin… og kindurnar eru allar hægra megin

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s