Erfiðu verkin

Jaran2

Það er sumt sem er erfiðara en annað í búskapnum, og þá er ég ekki að tala um líkamlegt erfiði, þó að þau verk séu vissulega miserfið líka.

Það sem mér og fleiri bændum finnst erfiðasta starfið í búskapnum er eitt af haustverkunum, en það er að fara í gegnum allar kindur búsins og ákveða hverjar verða áfram og hverjar fara í hvíta húsið.

Það er nefnilega alltaf þannig að endurnýjun þarf að eiga sér stað í bústofninum, og fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Kindur eldast og missa heilsuna, þær geta fengið júgurbólgu sem leiðir til þess að þær geta ekki fóðrað afkvæmi sín og þær geta fengið sjúkdóma sem leiða til þess að þeim líður illa. Þegar kindur eru komnar á þennan stað í lífinu er það velferðarmál að leyfa þeim að fá hvíldina löngu, enda hefur enginn áhuga á að sjá dýrin sín þjást. Þar að auki kemur fyrir að kindur fá ekki endurnýjaða vetursetu vegna þess að þær skila ekki nægum afurðum. Það er nefnilega þannig að til þess að bóndinn geti séð fyrir sínum kindum og veit þeim bæði fóður og gott húsaskjól, þarf hann að fá tekjur af viðkomandi kind. Þess vegna leitast bændur við að halda fremur þeim kindum sem skila vænum lömbum en hinum lakari.

Það sem er svona erfitt við þetta starf er svo þegar bóndinn þarf að sjá á eftir vinkonum sínum til margra ára, sem hafa staðið sig vel í gegnum tíðina, en eru orðnar það aldraðar að ekki er lengur réttlætanlegt þeirra vegna að halda þeim eitt árið enn. Þegar uppáhaldskindur koma heim slasaðar eða sjúkar sem veldur því að þær hafa horast, líður illa og þurfa því að fara yfir móðuna miklu. Það finnst engum bónda gaman að þurfa að fylgja slíkum kindum síðasta spölinn, en það er þó huggun harmi gegn að verið er að binda enda á þjáningar þeirra, ásamt því að þegar framfarir nást í ræktarstarfinu eru meiri líkur til að bóndinn geti hugsað vel um þær ær sem eftir eru.

Nú í vikunni fór ein af mínum uppáhalds kindum þessa leið. Það var hún Jara mín sem var orðin 8 vetra og farin að verða ellimóð fram úr hófi. Jara var afar skemmtileg kind. Hún hóf ævina sem heimagangur og var frek eftir því. Hún var til dæmis ekkert feimin við að stanga hundinn fyrsta sumarið sitt, þrátt fyrir augljósan mun á líkamsburðum hundinum í vil. Hún var að auki ein af okkar kögglaspöku kindum og elskaði þannig nammi, en vildi nú ekki klapp og klór nema henni sjálfri þóknaðist. Þegar á rúningi stóð var hún yfirleitt stillt meðan á honum stóð og átti það jafnvel til að stanga þær kindur sem höguðu sér illa, henni fannst slík hegðun greinilega ekki boðleg sómasamlegum kindum. Jara stóð sig sömuleiðis ágætlega sem afurðakind og var nokkrum sinnum þrílembd.

Það verður mikill söknuður að henni Jöru minni í húsunum í vetur. Ég veit hins vegar að hún, ásamt hinum vinkonum mínum, átti góða ævi hjá okkur og leið vel, sú vitneskja lýsir mér áfram veginn.

Jaran
Við Jara á góðri stundu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s