Nú er fyrsti vetrardagur kominn og farinn og meira að segja er kominn nóvember, og þar með fara vetrarstörfin að taka við af hauststörfunum.
Eitt af vetrarstörfunum er að taka fé á hús, en svo er nefnt þegar fénu er smalað inn í fjárhús og byrjað að gefa því hey. Hingað til hafa kindurnar nefnilega verið úti á beit en þegar fer að vetra verður það nauðsynlegt að fara að gefa fénu eitthvað kjarnbetra en sinuna (gras frá liðnu sumri), ásamt því að ef snjóar mikið getur orðið haglaust sem kallað er. Þó að sinan sé ágæt til síns brúks er hún hins vegar ekkert sérlega orkumikil þegar þessi tími er kominn og til að kindurnar tapi ekki holdum er þeim gefið hey á veturna, sem er mun næringarríkara en sinan (svolítið eins og munurinn á því þegar við fáum okkur sælgæti í matinn eða staðgóða máltíð). Þegar er orðið haglaust er síðan kominn ýmist svo mikill snjór að sinan er orðin illnáanleg eða svo harður snjór að kindurnar ná ekki að krafsa sig niður á sinuna. Við slíkar aðstæður eru kindurnar orðnar matarlausar og þá er nú voðinn vís. Þess vegna taka bændur féð á hús áður en það gerist.
Þegar þessi tími er kominn er féð semsagt tekið á hús, en eins og með ýmislegt annað þá þarf þetta allt að gerast í réttri röð. Fyrst eru hrútar og lömb tekin inn. Lömbin eru tekin inn með þeim fyrstu af því að þau eru enn að stækka og þurfa þess vegna mun fyrr á því að halda en eldri kindurnar að fá kjarngóðar máltíðir. Hrútarnir eru hins vegar teknir inn með þeim fyrstu til að þeir séu ekki að viðhafa dónalega tilburði við ærnar of snemma. Hrútarnir fylgjast nefnilega vel með dagatalinu og vita allvel, og jafnvel fullvel, að fengitíminn nálgast. Þess vegna eru þeir teknir inn tiltölulega snemma til að þeir séu ekki að snudda utan í kvenkyninu án leyfis, enda eru þeir sauðfjárbændur hverfandi sem hafa áhuga á sauðburði í marsmánuði. Reyndar er svo lítill áhugi fyrir marsburði að það hefur hreinlega verið fest í lög að hrútum skuli haldið í vörslu frá 1.nóvember til 1.maí ár hvert. Lög þessi heita lög um búfjárhald og þar er heill kafli um hvernig skal annast vörslu búfjár, virkilega áhugaverð lesning.
Síðustu tvær vikur hafa hrútarnir okkar semsagt verið inni á gjöf (fengið hey að éta) og þeim líkar það hreint ekki vel þar sem það er búið að stúka þá af frá öllum kvenkindum. Þeirra tími kemur hins vegar von bráðar enda er tíminn afar fljótur að líða og ekki svo langt í fengitímann hinn löglega.
Reyndar eru nokkrar óþekktargimbrar inni líka sem við erum búin að vera að hirða upp á bæjunum í kringum okkur undanfarið. Kindurnar okkar eru nefnilega ekkert feimnar við að skella sér til sunds og svamla yfir ána eins og þeim dettur í hug, þegar þær haga sér svona eru þær hins vegar teknar heim í stofufangelsi. Það er hins vegar spurning hvort stofufangelsið kennir þeim nokkuð lexíu þar sem þeim virðist finnast það alveg ljómandi fínt að vera komnar inn á gjöf 🙂