Jólaklippingin

Tjald3

Nú er kominn sá tími sem fjárstofn landsins er almennt tekinn á hús og fær jólaklippinguna í leiðinni. Það er þó þannig með þessa inntöku, eins og annað í lífinu, að allt þarf að gerast í réttri röð.

Þar sem ullin er hluti af verðmætum þeim sem sauðkindin gefur okkur þarf við meðferð á henni, eins og öðrum afurðum, að leitast við að hámarka hagnaðinn af henni. Ullin sem kemur við haustrúninginn er nefnilega misjöfn að gæðum. Ullin sem kemur af líflömbunum er verðmætasta ullin þar sem hún er mun mýkri en ull af fullorðnum kindum, og þess vegna er reynt að ná þeirri ull eins góðri og hægt er. Sömuleiðis er nauðsynlegt að taka gimbrarnar á hús á undan fullorðna fénu, þar sem þær eru ennþá að vaxa og þurfa þess vegna að fá næringarríkt fóður. Fullorðnu kindunum nægir hins vegar að fá svokallað viðhaldsfóður, en það er fóður sem dugar þeim til að halda í horfinu, það er að þær hvorki grennast né fitna á því.

Það er síðan mikilvægt að ná að rýja kindurnar sem fyrst eftir að þær koma inn, þar sem að ullin er fljót að skitna þegar inn er komið. Til dæmis kemur svokallaður heymor í ullina, en þegar kindurnar demba sér á garðann og graðka í sig heyinu á fyrrnefnt hey það til að fara á flug og lenda í ullinni á þeim. Þar með er orðið erfiðara að þvo hana og þannig rýrnar verðmætið.

Þegar er gott veður á haustin og í byrjun vetrar, eins og hefur verið núna, gefst möguleiki á að rýja inn sem kallað er. Þá er tekinn inn ákveðinn hópur á hverjum degi, eftir því sem viðkomandi rúningsmaður hefur tíma til að rýja þann daginn, og næst ullin þannig alveg tandurhrein og fín. Ef það fer hins vegar að hríða að þarf að taka allt fé á hús í einu, og þá geta ullargæði rýrnað þar sem ekki er endilega hægt að rýja allt fé sama dag og tekið er inn. Það er hins vegar eitthvað sem þýðir ekki að fást um, velferð kindanna er nefnilega alltaf í fyrsta sæti og ullin kemur þar á eftir.

Núna erum við búin að taka allar gimbrarnar á hús, og það er búið að rýja þær velflestar. Það er hins vegar sá gallinn á, þegar einungis lömb og hrútar eru komin á hús en ekki restin af kindunum, að þegar er mjög kalt úti getur orðið dulítið kalt í fjárhúsunum þar sem þessi fénaður nær ekki að hita allt rýmið nægilega upp. Því er stundum brugðið á það ráð að tjalda yfir lambakróna en það er velþekkt að því minna sem rými er því auðveldara er að hita það upp. Það getur svo verið mjög misjafnt eftir árferði hvort þarf að tjalda eða ekki. Tjöldin sem við notum núna eru tveggja ára gömul, voru notuð fyrsta árið en ekkert í fyrra þar sem haustið og vetrarbyrjun ársins 2016 voru svo ákaflega hlý. Núna þurftum við hins vegar að grípa til tjaldanna aftur þar sem það er búið að vera 10 stiga frost úti undanfarna daga. Ekki er svo að sjá annað en að gimbrunum líki lífið vel svona nýrúnar í tjaldinu sínu, skoppa og leika sér eins og sauðkindinni einni er lagið 🙂

Tjald2


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s