Það er ekki alveg þannig að umsýsla ullar sé frá um leið og búið er að rýja blessaða sauðkindina, það þarf nefnilega líka að meta gæði ullarinnar sem af henni kemur og svo í framhaldinu ferja ullina til kaupanda hennar.
Kaupandi ullarinnar heldur úti ullarþvottastöð á Blönduósi, en það er nauðsynlegt að þvo ullina áður en hún er unnin í band þar sem það er alltaf húðfita í henni, og í kindum sem eru subbur eru fleiri óhreinindi að auki eins og hey, lyng og mýrarrauða svo eitthvað sé nefnt (mýrarrauðu fá kindur á sig ef þær eru mikið að busla í mýrum, en vatnið í mýrunum er járnríkt og járnið getur litað ullina með rauðgulum blæ). Sömuleiðis er nauðsynlegt að flokka ullina eftir gæðum þar sem að það er eingöngu úrvalsull sem er nýtt í lopapeysur, lakari ull er hins vegar nýtt til annarra hluta.
Í gamla daga (sem var fyrir svona 10 árum), sendu bændur ullina óskoðaða í ullarþvottastöðina, þar var hún vegin og metin af starfsmönnum ullarþvottarstöðvarinnar og bændur fengu greitt eftir því mati. Fyrir nokkrum árum var þessu verklagi hins vegar breytt í hagræðingarskyni og núna meta bændur ullina sjálfir, setja í misjafna flokka og senda þannig flokkaða ull í ullarþvottastöðina.
Verklagið við ullarmat nú til dags er semsagt þannig að rúningsmaður setur hvert reyfi saman í bing (eitt reyfi er ull af einni kind) og síðan er metið hvernig gæði viðkomandi reyfis eru. Það er misjafnt eftir bæjum hvort rúningsmaðurinn metur ullina sjálfur eða hvort einhver annar sinnir þessu hlutverki. Hér á bæ sér rúningsmaðurinn systir mín um að rýja ærnar en ég og faðir minn sjáum um að flokka ullina niður eftir gæðum.
Það er síðan þannig að það er ekki sama hvernig ullin er flokkuð, enda er til heil reglugerð um það hvernig þetta mat skuli fara fram.
Í fyrsta lagi þarf að flokka ullina niður eftir litum, í hvíta ull annars vegar og mislita ull hins vegar. Hvítu flokkarnir eru þrír og heita H-lambsull sem er hvít ull af lömbum, H-1.flokkur sem er góð hvít ull og svo H-2.flokkur sem er lakari hvít ull. Mislita ullin flokkast síðan í fjóra flokka sem eru M-1.flokkur svart, M-1.flokkur grátt, M-1.flokkur mórautt og M-2.flokkur.
Það er ýmislegt sem hefur áhrif á það hvort ull fer í fyrsta flokk eða ekki, bæði hvað varðar hvíta ull og mislita ull. Til dæmis eru sumar kindur hvítar að sjá en þegar nánar er að gáð eru þær með gul hár út um allt reyfi. Sömuleiðis geta kindur verið með einn og einn svartan blett í reyfinu sem sést ekki endilega utan á þeim. Mislitar kindur eru svo með misjafnlega hreina liti. Kindur geta til dæmis verið svartar að sjá en þegar nánar er að gáð þá er reyfið uppfullt af hvítum hárum. Þetta eykst oft eftir því sem kindurnar eldast, svartar kindur grána semsagt með árunum. Mórauðar ær eiga stundum við þetta vandamál að stríða en eðlilega ekki gráar kindur enda eru þær gráhærðar fyrir! Í gráum reyfum skiptir hins vegar mestu máli að grái liturinn sé jafn yfir allt reyfið, semsagt að svört og hvít hár dreifist jafnt um allt.
Það þarf svo að taka frá ull sem er með ónáttúrulegan lit í sér. Bæði kindur og lömb eru merkt með allskonar litum á hverju hausti til að auðveldara sé að sjá hvaða kind á að fara á hvaða stað. Þessir litir eru oftast settir í hnakkann og endast alltaf lengur en þeir eiga að gera, og því þarf oft að taka hnakkaullina frá og henda henni. Reyndar er hnakkaullin oft grófari en aðrir hlutar reyfisins svo hún er ekki sérlega góð söluvara hvort eð er. Sömuleiðis getur þurft að henda ullinni af kviðnum á kindum þar sem þær liggja jú á bumbunni og þar með er hætt við að sú ull sé skítug.

Þegar búið er að taka tillit til alls þessa er ullinni troðið í viðkomandi poka, reimað fyrir og beðið eftir góðu færi til að selflytja ullina í þvottastöðina.
Að lokum verða hér birtar þrjár myndir af gráum gærum, svona rétt til að sýna fram á hvað breytileikinn getur verið mikill í grárri ull 🙂